Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1951, Page 25
ÞORSTEINN Þ. ÞORSTEINSSON:
Bókaskápurinn
Eg flý til þín, er annir ekki banna,
þín unun viti hverjum degi er ný,
sem geymir fegra safn af sálum manna,
en söfnuðurnir allir veröld í.
En mikið þér til safnaðanna svipar,
því sanna vissu fáum gefur þú,
fyrst vísindunum vizka jarðar skipar
til vegs og frama í sinni barnatrú.
Hver lokuð bók, er blóm sem nóttu sefur
með bikar luktan, hulinn myrkri í,
sem opnast strax og ilminn frá sér gefur,
er á það geislum sólin stafar hlý.
Hver opnuð bók, sem geymir líf og liti,
er lesandanum hugarsköpun ný,
sem inn í sál hans veitir nýju viti
og víkkar sjónarhringinn störfum í.
Og sögur fólksins — sannleikurinn hálfur
en samt sem áður mynd, er fyrr var dreymd —
þær sýna að draugur, dvergur, tröll og álfur,
er dular-líking manns í huga geymd.
Og ljóð um ást og söng og vín og víking
á vörum okkar geymist heiðni frá,
og von og trú, er enn þá eftirlíking
af apa-mannsins dýpstu hugarþrá.