Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1951, Page 26
6
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
Þú segir þögull sögu af þjóðum öllum,
en saga lífsins þar er oftast gleymd,
því sögnin snýst um skálka í háum höllum,
sem hjuggu menn og fyltu sveitir eymd.
En skáldsins tunga kendir lífsins kennir,
í kverum þeirra speglast mannleg sál,
og það er aðeins andinn sá, sem brennir
sig inst og dýpst í sérhvert tungumál.
Þótt breytist flestar ytri mannlífs myndir
og mál og stíll hjá hverrar aldar lýð,
hinn sami eldur enn þá brjóstið kyndir
sem ævalöngu fyrir sögutíð.
Og forna sagan leitar lífs og frama
sem letrað orð, er fyrst í gærdag sást,
því þúsund ára sál er enn hin sama
í sorg og gleði, fæðing, dauða, ást.
En mér er kærust allra alheims mynda
míns ættlands fræði í gömlum, nýjum sið,
er hæstu elda á hugans fjöllum kynda
í heimaelskri sál, er þráir frið.
Eg kveð þér þakkir, sálnageymir sæli,
í söfnuðinum þínum fagnar geð,
þú verður alt af vitringanna hæli
þótt vitfirringar slæðist í og með.