Hugur - 01.06.2010, Blaðsíða 128
I2Ó
Guðmundur Heiðar Frímannsson
Til að nemandi læri að hugsa gagnrýnið þarf kennarinn að kunna það. Ef hann
kann það ekki verður tilsögnin lítið annað en fálm og fum. En til viðbótar því að
hafa sæmileg tök á gagnrýninni hugsun þá þarf kennarinn að kunna svolítið til
verka í kennslu, hafa vald á aðferðum til að koma því sem máli skiptir til skila
til nemandans. Hluti af því að hafa tök á gagnrýninni hugsun er að kunna beita
dómgreind sinni í þeim efnum sem við eiga. Sá sem lítið eða ekkert veit um
gagnrýna hugsun er líklegur til að beina athyglinni að aukaatriðum, geta ekki
útskýrt með einföldum hætti grundvallaratriðin, sjá ekki samhengi á milli ólíkra
þátta námsins. En góður kennari myndar líka gott samband við nemendur sína
eftir því sem það er mögulegt í nútíma skólastofu. Kennari í gagnrýninni hugsun
veitir nemendum sínum leiðsögn, kennir og segir þeim til. En hann gerir meira.
Hann nær góðu sambandi við þá og ræktar það. Ef það tekst þá hefur hann enn
öflugra tæki í höndunum til að móta nemendur sína en kennsluna sjálfa. Það er
einföld staðreynd um flesta nemendur að því fylgir ánægja að gera vel. Ef þeim
gengur vel með verkefni eða á prófi þá fyllast þeir stolti yfir frammistöðunni og
trausti á eigin getu. Ef illa gengur finnst þeim það óþægilegt, jafnvel sársaukafúllt,
og sjálfstraustið bíður hnekki. Góður kennari hefúr margs konar möguleika á
að láta nemendur sína finna það þegar þeir gera vel eða illa. Stundum þarf hann
ekki annað en hika, breyta málrómnum, ég tala ekki um ef hann grettir sig, til
að gefa til kynna hvað honum finnst um hugmynd sem nemandi hefúr stungið
upp á. En góður kennari verður líka fyrirmynd nemenda sinna, þeim finnst hann,
hugsanir hans, ályktanir, hugmyndir og aðferðir eftirbreytniverðar. Þeir reyna að
líkjast honum hvort sem þeim er það ljóst eða ekki. Það er ákveðið traust og vænt-
umþykja í sambandi nemanda og kennara og þótt þetta samband sé breytilegt
eftir aldri nemandans þá virðast mér þessir tveir þættir ævinlega vera fyrir hendi.
Þessir tveir eðlisþættir í sambandi nemanda og kennara valda því að nemandi fer
smám saman að bregðast við eigin hugmyndum og ályktunum með svipuðum
hætti og kennarinn gerir. Ef hann gerir eitthvað sem gengur þvert gegn því sem
kennarinn metur mikils kann nemandinn að skammast sín. Ef honum hins vegar
tekst að gera eitthvað sem uppfyllir kröfúr kennarans verður nemandinn ánægður.
Með þessum hætti lærir nemandinn að tileinka sér viðhorf, áherslur, hugarfar
sem mótar hann. Ef kennarinn er vandanum vaxinn, hefúr í okkar tilviki góð tök
á gagnrýninni hugsun, þá verður nemandinn með tímanum fær í gagnrýninni
hugsun. Þegar svo er komið þá getur vel farið svo að nemandinn gagnrýni eitt og
annað hjá kennara sínum sem hann er ósammála en kennarinn getur verið stoltur
af gagnrýninni. Sé kennarinn mótaður af hugarfari gagnrýninnar hugsunar gleðst
hann yfir framtaki nemanda síns.
Hugarfar gagnrýninnar hugsunar er í raun siðferðileg afstaða til þess hvernig
hugsað er og um hvað er hugsað og sömuleiðis birtist þessi siðferðilega afstaða í
því sambandi sem kennari myndar við nemanda sinn. Hin gagnrýna hugsun felur
það í sér að kennari nálgast nemanda sinn sem vitsmunaveru og umgengst hann
þannig, tilsögnin, kennslan og námið miðar að því að þroska nemandann sem
vitsmunaveru, ekki í þeim þrönga skilningi að greind hans ein skipti máli hcldur
í þeim skilningi að vitsmunir eru eðlisþáttur góðs h'fs. Góðu lífi lifir hver og einn