Tímarit Máls og menningar - 01.12.1972, Side 61
Minningar úr stéttabaráttunni
félagsins 30. apríl til að fá borgað og heyri þá, að dallurinn eigi að fara út
um kvöldið. Mér er þá fyrirmunað að halda kjafti og segist hvergi fara, það
sé óhæfa að leyfa ekki áhöfninni að vera í bænum á baráttudegi verkalýðs-
ins. Þetta varð til þess að ég fékk ekki grænan eyri. Ekkert gat ég gert í
málinu, því útgerðin hafði lagabókstafinn sín megin: það var sólarhrings
uppsagnarfrestur. Já, það getur stundum verið dýrt spaug að vera stéttvís.
Þá fer ég á bílaverkstæðið Oxul, dótturfyrirtæki Almenna byggingafélags-
ins, og er þar til 1949.
Ég held, að á stríðsárunum og árunum þar á eftir hafi það skipt mjög
miklu fyrir uppbyggingu og starf verkalýðsfélaganna, að sérhver sósíalískur
verkamaður var búinn að afla sér haldgóðrar þekkingar og reynslu á at-
vinnuleysistímabilinu á undan. Þetta voru menn sem gátu staðið sjálfstæðir
sem forsvarar fyrir sínu máli. Þó ekki væri nema einn eða tveir slíkir í vinnu-
flokk, t. d. hjá bretanum, þá gátu þeir tekið forystu í ýmsum málum og
leitt vinnuflokkinn, án þess að til þyrfti að koma ábending eða skipun ein-
hversstaðar að ofan. Á seinni árum hefur það afturámóti viljað brenna við,
þó um hafi verið að ræða stéttvísa menn og þrælróttæka, að sjálfstæð hugsun
og sjálfstætt framtak hafi rokið útí veður og vind. Það er einsog það sé húið
að mata þá á einhverju sem þeir kunna svo ekki full skil á. Já, það er einsog
þeir séu eitthvað smeykir við skrifstofuliðið - sem mér finnst nú að ætti
að hafa meiri ástæðu til að óttast verkamenn en verkamenn það. Arfurinn
frá atvinnuleysistímabilinu er að mestu horfinn og það kemur ekkert í
staðinn; það er heldur ekki barist fyrir neinu í staðinn. Það verður að
berjast fyrir öllu.
*
I stríðslok fer ég svo á bólakaf í vinnu. Þá var kaupið lágt, vöntun á
öllu, en hægt að fá vinnu öll kvöld og allar helgar. Þátttaka mín í félags-
málum Dagsbrúnar varð því ekki eins mikil og ella hefði orðið. Við þetta
bættist að ég gifti mig 1944 og tók að hlaða niður börnum. Og þarmeð
hafði maður hafnað í þessari sígildu hringrás: það verður að viðhalda lýðn-
um til að endurnýja vinnuaflið. Maður verður leiksoppur eignastéttarinnar,
þrælar frá morgni til kvölds fyrir skítakaupi, sem fer í að ala upp börnin,
gera þau að vinnuafli sem eignastéttin hagnast svo á á sama hátt og manni
sjálfum. Og á þessum árum virtist mörgum ungum mönnum, sem voru að
203