Tímarit Máls og menningar - 01.12.1972, Side 74
Tímarit Máls og menningar
ekkert eins djöfullegt og að sitja og geta ekkert aðhafst. Það er dauðinn
sjálfur.
Það gefur auga leið, að eftir sex vikna verkfall var farið að sverfa að
mörgum heimilum. Þegar verkfallssjóðir voru opnaðir mynduðust langar bið-
raðir. En í þessu verkfalli þekktist það ekki, sem síðar vildi brenna við, að
menn færu beint úr verkfallssjóðnum niðrí ríki og keyptu sér brennivín. í
fyrstalagi var neyðin meiri; mönnum var ekki stætt á öðru en að leggja
hverja einustu krónu í heimilið. í öðrulagi var mórallinn slíkur, að þeir
menn sem hefðu gert þetta, hefðu ekki verið hátt skrifaðir hjá félögum sín-
um á eftir.
Það sem vannst með þessu verkfalli var atvinnuleysistryggingasjóðurinn,
10-11% kauphækkun, lenging orlofs og full vísitala á allt kaup. Þetta voru
þó engin ósköp, því árin á undan hafði kaupmáttur launa minnkað mjög
verulega. Það voru þessvegna langtífrá allir sem voru fúsir til að samþykkja
þessa samninga á fundi í Gamla bíó í lok verkfallsins. Um 300 verkfallsverðir
voru æfir yfir þessari smán og vildu halda verkfallinu áfram. Þeir fengu
Hjalta Ámason til að tala fyrir sig, en þegar til kom, talaði Hjalti alls ekki
gegn samningunum, þó hann talaði ekki beint með þeim heldur. Hann benti
aðeins á, að við hefðum ekki bolmagn til að berjast lengur, það væri stað-
reynd sem við yrðum að horfast í augu við. Og er ég á því að svo hafi verið.
Skorturinn var orðinn tilfinnanlegur og fólk farið að flýja bæinn.
Eftir verkfallið fór ég aftur á verkstæðið hjá Sveini Egilssyni. Fyrsta
morguninn kom frægur verkfallsbrjótur með bíl til viðgerðar. Hann hafði
fengið viðurnefnið sólarhringur; það var sagt að hann hefði í verkfallinu
vakað nótt sem dag við að brjóta það. Það var ennþá illska í mannskapnum,
og hótuðum við atvinnurekandanum því að segja upp allir sem einn ef þessi
maður fengi afgreiðslu. Og lét hann undan.
Refsiaðgerðir af þessu tagi eru nauðsynlegar, þó auðvitað sé ekki hægt að
setja „sólarhringana“ í langvarandi bann. Glæpamenn verða að lifa einsog
aðrir.
Ekki varð ég nú ellidauður hjá Sveini. Á næstu árum var ég á ýmsum verk-
stæðrnn og oft ekki lengi á hverju. Það kom sér nú illa fyrir mig að hafa
ekki réttindi sem bifvélavirki, þvi eftir því sem bifvélavirkjum fjölgaði, því
meir var níðst á verkamönnum í greininni. Það var regla fremur en undan-
tekning á bílaverkstæðum á þessum árum, að verkamenn fengu aðeins greidd
laun á meðan bíll var í viðgerð. Þegar vantaði verkefni fékk maður ekki
neitt. Af þessu leiddi að menn leituðu ævinlega þangað sem mest var að gera.
216