Tímarit Máls og menningar - 01.06.1996, Blaðsíða 10
Systursonur minn var á leiðinni þegar ég byrjaði að vinna í Hjartastað og
hann er núna kominn hátt á fimmta ár drengurinn. Ég var farin að óttast að
hann yrði fermdur áður en mér tækist að ljúka bókinni! Svo hafði ég það af
sama daginn og systir mín eignaðist næsta.
Hvernig vinnurðu stórt verk eins ogþessa skáldsögu?
Ég vann heilmikla undirbúnings- og hugsanavinnu, las bæði líklega og
ólíklega hluti til að koma mér inn í rétt andrúmsloft, til dæmis þjóðsögur og
fróðleik á borð við Árbækur ferðafélagsins og austfirsk tímarit. Ég fyllti
nokkrar stílabækur af athugasemdum um söguna og ýmsum glósum, úr
samtölum við innfædda Austfirðinga, og úr því sem ég hafði lesið. Svo rótaði
ég öðru hvoru í þessum námum í þau fimm ár sem ég var að semja
Hjartastað.
Éyrsta uppkastið að bókinni er að stórum hluta handskrifað, mér finnst
gaman að handskrifa og tölvan var ekki alltaf við hendina. Ég vann skipulega
nokkra tíma á hverjum degi, byrjaði daginn á því. Það hefur reynst mér
langdrýgst þegar ég er að frumsemja að hafa nokkuð fasta rútínu því að
annars verður ekki neitt úr neinu. Ég get unnið langan vinnudag þegar ég er
að leiðrétta og fara yfir, en hausinn fer að gefa sig eftir nokkra klukkutíma
við að frumsemja. Mér finnst ég líka koma ferskari að verkinu að morgni ef
ég geri annað en að semja síðdegis og á kvöldin.
Ég vissi ekki í smáatriðum hvernig bókin átti að verða. Ramminn er
löng ferð og ég vissi ekki alltaf hvenær hvaða hlutir áttu að gerast á leiðinni.
Endinn á bókinni sá ég ekki fyrir, en ég sá nokkurnveginn fyrir helstu
þræði.
Nú, það sem kemur í fyrsta uppkasti hjá mér er hrákasmíð. Ég held að
þetta sé eitt trixið sem maður beitir sig; bara til að fá eitthvað á blaðið þá
lætur maður það flakka dáldið hressilega og þá er komið einhvers konar
materíal í hendurnar á manni. Vísir að hráefni. Þannig má kannski segja að
ég vinni mig tvisvar sinnum upp úr engu. Þegar maður byrjar að skrifa bók
er maður að skapa eitthvað úr engu og það sem ég hef eftir íýrstu umferð er
næstum því ekki neitt heldur. Þó eru það áþreifanleg orð á pappír, og þá get
ég byrjað að krota liðugt og djöflast í þessu. Fyrir manneskju sem vinnur
svona er tölva himnasending. En það er alveg sama hvaða aðferð ég nota,
þetta er kleppsvinna, og ég skil varla hvernig ég fór að því að ljúka við
Hjartastað. Fyrir utan allt annað var hún mun lengri á ýmsum stigum en í
lokaútgáfu.
8
TMM 1996:2