Tímarit Máls og menningar - 01.06.1996, Blaðsíða 22
mér hvernig allt mögulegt er. Ég hefði aldrei skrifað þessa bók ef ég hefði átt
ungling á villigötum, sem ég held að sé hræðilegt hlutskipti. í sumum
tilfellum hef ég mikla ótrú á því að skrifa beint um eigin reynslu. Ég lít ekki
svo á að það sé mitt hlutverk að segja sannleikann um hvernig er í pottinn
búið með eitt og annað, heldur á verkið að vera satt í sjálfu sér. Það sem ég
skrifa hefur ekkert með ytri sannleika og lygi að gera, heldur verður innri
heimur verksins að vera sannur. Á þann hátt finnst mér kjarninn í því sem
ég sýsla við vera einhverskonar sannleiksleit. En það er eitthvað falskt við að
tala um að verk sé heiðarlegt: „Þetta er svo satt, þetta er svo heiðarlegt“ ...
Maður er í því að hafa þetta almennilegt ef maður mögulega getur og orðið
heiðarleiki er einhvern veginn skrýtið í þessu samhengi. Hverjum mundi til
dæmis detta í hug að kalla Don Kíkóta „heiðarlegt verk“. Margir góðir
skáldsagnahöfundar ástunda ólíkindalæti sem lesandinn tengir sig við með
eigin sköpunarkrafti.
Það er semsagt munurá heiðarleika innan verksins og heiðarleika eða sannleika
sem hefur einhverja veruleikavídd eða skírskotun?
Algerlega. Til dæmis ef það er heiðarleiki að geta bara skrifað um eitthvað
sem maður þekkir, þá er ég ekki með á nótunum. Mitt starf, þegar ég er að
skrifa skáldsögu, er að ímynda mér allan fjárann sem ég hef aldrei prófað á
sjálfri mér og mun aldrei gera. Ég hef konkret dæmi. Ég á draumastað á
Islandi. Hann er ekki austur á fjörðum eins og Hjartastaðurinn, heldur í
Skaftafellssýslu. Það var og er mín sveit. En mér hefði þótt klámfengið að
taka hraunið mitt og jökulinn minn og fljótið mitt og gera það að staðnum
hennar Hörpu, það bara kom ekki til greina. Fyrir utan þá praktísku ástæðu
að það þurfti að minnsta kosti tveggja daga ferð utanum bókina! Ef ég hefði
notað minn stað hefði ég líka verið svo bundin, t.d. af hraunnibbunum og
grágrýtinu ffá því þegar ég var stelpa. Ég verð að fá að ímynda mér allt aðra
og litríkari steina sem finnast ekki þar sem ég var. Geislasteina og jaspis sem
ég fór á mis við þegar ég var lítil og verða ekki höndlaðir úr þessu nema í
skáldskap.
Er lesandinn nálægt þér þegar þú ert að skrifa?
Höfundur skrifar bækur til að þóknast sjálfum sér. Ef hann reynir að sleikja
sig upp við lesandann er verkið dauðadæmt. Hins vegar má segja: Nú ef
höfundur er bara að skrifa fyrir sjálfan sig, af hverju þurfa þá til dærnis
persónurnar að heita eitthvað, því höfundurinn hlýtur að vita um hvern
hann er að tala í hvert sinn. Þannig að bók sem er ætluð til útgáfu hlýtur á
20
TMM 1996:2