Tímarit Máls og menningar - 01.06.1996, Blaðsíða 20
Ég lýsi þessum kvenpeningi bara eins og mér finnst hann eigi að vera. Báðar
eru samsettar og þversagnakenndar manneskjur. Þó að Harpa sé ekki lík
Öldu til dæmis, þá hafa báðar sveiflukennt geðslag. Og ég held að flestir séu
þannig, þekki að minnsta kosti ekkert annað. Alda sveiflast eftir ástinni og
ástarsorginni, en það er statísk ástæða, það er ástand sem skapaðist og er
alltaf eins, hún er varla nálægt þessum manni í öll þessi sjö ár og heldur samt
áfram að sveiflast og elsk’ann og hat’ann. En Harpa Eir er með ástand yfir
sér sem er breytilegt frá einni mínútu til annarrar, það er þessi hryllilega
dóttir, skrímslið.
Og í framhaldi af öllu þessu: Hvað með kvenímyndina almennt í bókunum
þínum? Hugsarðu mikið um slík mál, feminisma og kvenhetjur?
Konurnar í bókunum mínum eru ekki kvenímyndir, þær eru söguhetjur sem
ég fer höndum um af allri þeirri ást og umhyggju sem ég á til, án þess að eiga
beint í lesbísku sambandi við þær, a.m.k. hingað til. Fleira kemur til en ást
og umhyggja, óþolinmæði til dæmis gagnvart brestum þeirra, óþolinmæði
sem ég verð auðvitað að fela í textanum og breyta í eitthvað annað. Það er
svo margt sem manni fínnst, en má ekki láta bera of mikið á að manni finnist,
eða verður að nota útsmognar leiðir til að koma því að. Ef ég mætti segja frá
einhverri gryfju sem mig langar ekki til að falla í þá er það þessi lymskulega
sjálfsupphafning kvenna, sem ég á erfitt með að þola og þar er innan sviga
‘við konurnar erum betri, við erum æðri flokkur’. Mér finnst ég geta leyft
Hörpu að vorkenna sjálfri sér upphátt, það finnst mér vera allt annar hlutur
en að vera með undirliggjandi sjálfsvorkunn og upphafningu. Og Harpa má
eiga það að hún er ekkert að upphefja sig en hún hefur annan kvenlegan
eiginleika sem er sá að hún dregur úr sér. Samt er hún rosalega hugrökk og
er náttúrulega hvunndagshetja. Það er nú annað en Alda mín, það þýðir
ekkert að kalla öldu hvunndagshetju, hún er sparihetja.
Mér fmnst konurnar mínar ólíkar. Þó eiga Harpa Eir og Alda sameigin-
legan gríðarlega sterkan vilja, og Samanta líklega líka. En það er viljinn sem
brýtur Öldu á bak aftur, eða hún brotnar þegar hennar vilji verður ekki,
þegar hún fær ekki þann sem hún elskar. En það er hinn sterki og þó
brothætti vilji Hörpu sem drífur hana á áfangastað og rífur hana upp, öfugt
við Öldu. Alda er þó sú sem ætti að standa mun betur að vígi. En Harpa er
sú sem hefur skjólstæðing til að berjast fyrir, dóttur sína. Kannski það sé
ömurlegasta hlutskiptið bæði í lífi og bók að eiga sér ekki lifandi skjólstæð-
ing. Að vísu á Alda skjólstæðinga, ástina og sannleikann, en þeir eru ekki
áþreifanlegir.
18
TMM 1996:2