Tímarit Máls og menningar - 01.06.1996, Blaðsíða 19
sneið af lífinu, þó hún sé ekki endilega að herma eftir því, og ég skil ekki
hvernig hægt er að sleppa húmornum. Lífið er svo grátlega fáránlega fyndið
og húmorinn er eitt af okkar helstu tækjum til að takast á við tilveruna, hann
er áhald til þess að vera til. Að ætla að reyna að lifa án þess að sjá húmor er
eins og að ætla að hjóla og hafa ekki reiðhjól. Af því að skáldsagan er á
einhvern hátt um Lífið, með stóru elli, þá hlýtur þetta að vera órjúfanlega
tengt. Margar bækur eru ógeðslega fyndnar þó það sé ekkert talað um að þær
séu fyndnar, Dostojevskí, til dæmis, er svakalega fyndinn höfundur á köflum.
Einhver sagði að Ulysses væri ‘comic masterpiece’, og auðvitað er það það
sem Ulysses er þó bókin sé líka ýmislegt fleira. Joyce er eins og Halldór að
því leyti að fyndnin er svo mikið í orðunum og rækilega innbyggð í textann.
Þetta snýst um að setja þau á nákvæmlega þann stað þar sem þau eru fyndin
og lýsandi. En ef það á að fara að gera úttekt á minni prívat og persónulegu
fyndni þá verður að byrja á því að greina á milli ljóðagerðarinnar og prósans.
Ljóðin mín eru yfirleitt annað en fyndin.
Ég á mjög gott með að tengja mig við húmorinn hjá Kafka. Þennan
einkennilega málefnalega furðulega húmor þar sem fólk getur þrasað enda-
laust um einhver óleysanleg atriði, þetta absúrditet sem er ekki endilega
bullandi en alltaf eitthvað á skjön. Það er eitthvert mentalítet hjá honum sem
mér finnst ég standa mjög nálægt, og mér sýnist að skáldsagan sem ég vinn
í núna sé að einhverju leyti í hans anda.
Nú eru konurnar í bókum þínum mjög sterkar persónur og iðulega fyndnar,
eins og til dæmis Harpa Eir.
Fyrir mér eru Harpa Eir og Alda hvorki fyndnar né ófyndnar, en bæði
Hjartastaður og Tímaþjófurinn eru skrifaðar í fyrstu persónu og hluti af
báðum bókunum er eintal sálarinnar. Svoleiðis orðræða gengur að einhverju
leyti út á athugasemdir um sjálfan sig og þær geta ekki annað en verið
gráthlægilegar á köflum. Báðar þessar konur gera meðvitað grín að sjálfum
sér, og ég er sammála þeim í því að það er ein af leiðunum til þess að lifa af,
bæði í bók og lífi. Grínið er ein helsta aðferðin til þess að skipta um
sjónarhorn, og fá fjarlægðina sem er svo nauðsynleg til þess að hægt sé að
nálgast hlutina og sjálfan sig — líka úr nálægð.
Eins og þú segir eru Harpa og Alda alltaf að kommentera á sjálfar sig og skoða
sig í tungumálinu, ogþað er ígegnum þessa sjálfsskoðun og sjálfsíróníu sem við
kynnumst þeim, eða; þú kynnir þœrfyrir lesendum. Sjálfsskoðunin og írónían
hljóta því að vera mikilvægurþáttur í lýsingunum.
TMM 1996:2
17