Tímarit Máls og menningar - 01.06.1996, Blaðsíða 41
að hann átti að bjóða öllum á dýran veitingastað, líklega í Perluna, því
ein mágkonan lagði hart að honum:
„Úr því þú ert kominn verðurðu að sjá Perluna!“
Síðan lýsti hún, líkt og einni af furðum veraldar, að Perlan snúist í
einn hring, ef borðuð er venjuleg máltíð, en tvo ef maður fær sér
fordrykk og koníak eftir matinn.
„Til þess að það svífi fljótt á mann,“ sagði yngsti bróðirinn í gamni
en um leið hreykinn.
Þegar engin viðbrögð sáust hjá honum kom skilningsleysi í augu
systkinanna og kannski vöknuðu efasemdir um að hann væri eins
auðugur og þau höfðu haldið, úr því hann ætlaði ekki að slá um sig
til að sanna velgengni sína. Nú fannst þeim líka skrýtið að hann skyldi
hvorki vera klæddur né klipptur eftir nýjustu tísku og bræðurna setti
hljóða þegar hann kvaðst búa í gistihúsi.
„Hvers vegna ertu þá að koma heim?“ spurði eiginkona elsta bróð-
urins afar hissa.
„Svo ég losni einu sinni við að þurfa að gista á fimm stjörnu
hótelum,“ svaraði hann kuldalega og fann að hann hafði ekkert að
sækja til þessa fólks.
Bræðurnir fóru undan í flæmingi við spurninguna, hvort enn væri
hægt að fá sömu gærufóðruðu úlpurnar sem allir gengu í þegar hann fór.
„Ég hélt þú tylldir í tískunni,“ svaraði elsti bróðirinn og tók hann
af dagskrá með því að fara að segja frá hneykslismáli fréttastjóra, sem
hann hafði hvorki áhuga á né þekkti, en aðrir urðu æstir og sögðu að
þetta væri orðið eins og í Bandaríkjunum nema hér vantaði raunveru-
lega peninga.
Daginn eftir ákvað hann að taka bílaleigubíl og aka úr bænum.
Hann tók með sér myndavélina og langaði að taka myndir af fólki sem
sæti dauðyflislegt við borð hjá glugga eða inni í stofu undir útskorinni
hillu í horni. í þessu sambandi mundi hann eftir einum móðurbróður
sínum, gömlum manni sem bjó einn. Hann reyndist vera hvorki með
né móti því að láta ljósmynda sig. Þetta kannaðist hann við hjá sjálfum
sér, deyfðina sem lét flest yfir sig ganga, án þess að leyfa öðrum að
ryðjast beinlínis inn á sig. Honum varð skemmt við þá hugsun að
hann væri líka einbúi í starfsgrein sinni og spurði um annan móður-
bróður, bónda sem bjó ekki langt í burtu en nær sjónum.
TMM 1996:2
39