Tímarit Máls og menningar - 01.06.1996, Blaðsíða 107
Ég býst við að lexían af þessu öllu sé þessi: Aldrei vera hræddur við neðan-
málsgreinar. Svona hljóma tilvikin sex þar sem Flaubert minnist á augu
Emmu Bovary í allri bókinni. Þetta er greinilega efni sem honum hefur þótt
skipta dálitlu máli:
1. (Emma birtist fyrst) „Að því marki sem hún var fögur lá fegurð hennar
í augunum: þó að þau væru brún, gátu þau virst svört vegna augnhár-
anna (...)“
2. (Lýst af aðdáunarfullum eiginmanninum skömmu eftir brúðkaupið)
„Honum virtust augu hennar stærri, sérstaklega þegar hún var rétt að vakna
og deplaði augunum nokkrum sinnum í röð; þau voru svört, þegar hún var
í skugga og dökkblá í fullri dagsbirtu; og þau virtust búa yfír hverju laginu
af öðru af litum, sem voru þykkari að blæ dýpra undir og urðu bjartari er
nálgaðist glerjungskennt yfirborðið.“
3. (Á dansleik við kertaljós) „Augu hennar virtust jafnvel svartari.“
4. (Þegar hún hittir Léon fyrst) „Hún festi á honum sjónir með stórum,
galopnum, svörtum augum sínum.“
5. (Inni, eins og hún birtist Rodolphe þegar hann horfir fyrst á hana)
„Svört augu hennar.“
6. (Emma lítur í spegil inni að kvöldlagi; hún hefur rétt verið forfærð af
Rodolphe) ,Augu hennar höfðu aldrei verið svo stór, svo svört né búið yfir
eins mikilli dýpt.“
Hvernig orðaði gagnrýnandinn þetta aftur? „Flaubert byggir ekki upp
persónur sínar með hlutlægum, ytri lýsingum, eins og Balzac. Svo kærulaus
er hann reyndar um ytra útlit þeirra að ( . .. ).“ Það gæti verið fróðlegt að
bera saman þann tíma sem Flaubert varði í að fullvissa sig um að hetja hans
hefði hin sérstöku og erfiðu augu harmrænnar hórkonu og tímann sem dr.
Starkie varði í að gera lítið úr honum, í kæruleysi sínu.
Og svo er eitt að lokum, bara til að reka á þetta smiðshöggið. Elsta
veigamikla heimildin um Flaubert er Souvenir littéraires eftir Maxime du
Camp (Hachette, París, 1882-1883, tvö bindi); slúðurkennd, hégómleg, full
af sjálfsréttlætingu og óáreiðanleg, en þó sögulega mikilvæg. Á blaðsíðu 306
í fyrra bindinu (Remington & Co., London, 1893, þýðanda ekki getið) lýsir
du Camp í smáatriðum konunni sem var fyrirmyndin að Emmu Bovary. Að
sögn hans var hún önnur eiginkona herlæknis frá Bon-Lecours, í grennd við
Rúðuborg:
Þessi seinni kona var ekki fögur; hún var lítil og hafði daufgert, gult
hár og andlit hulið ffeknum. Hún var fúll af sýndarmennsku og
fyrirleit eiginmann sinn og áleit hann fífl. Hún var allvel í holdum
og bjartleit, húðin stóð hvergi á beini og í holningu hennar eða
TMM 1996:2
105