Skírnir - 01.01.1963, Blaðsíða 76
72
Símon Jóh. Ágústsson
Skírnir
og skemmtilegri fyrir unglinga en franskar nútímaskáldsögur,
sem eru of sálfræðilegar, og þýzkar, sem eru of þunglama-
legar.
VI.
Ég vildi nú koma fram með tvær reglur, sem mér virðast
gilda um lestur barna og unglinga, svo framarlega sem hann
á að efla andlegan þroska þeirra:
1. Lestrarefnið verður ávallt að vera í samræmi við áhuga-
mál barnsins, skilning þess og þroska á hverju aldursskeiði.
Gagnslaust er að halda að börnum bókum, sem þau hafa ekki
gaman að, jafnvel skaðsamlegt, því að það getur myndað
með þeim varanlegt ógeð á bókalestri. Einu gildir, hve bækur
þessar kunna að vera góðar frá bókmenntalegu sjónarmiði.
Ef barnið getur ekki notið þeirra, er lestur þeirra ótímabær.
Þeim má líkja við fæðu, sem er holl og næringarrík full-
orðnum mönnum, en er of þungmelt börnum. Sakir bók-
menntalegs hégómaskapar, sem sumir eru haldnir, mega
menn gæta sín að misbjóða ekki börnum í þessu efni. Bókin
verður framar öllu að hafa skemmtigildi fyrir barnið.
2. Það er ekki nóg, að barninu þyki bókin skemmtileg, hún
verður einnig að hafa þroskagildi fyrir það. Sömu þörfinni
eða áhugamálinu er unnt að svala með ýmsu móti. Góð bók
getur verið eins skemmtileg og auðskilin og léleg bók. Sígild-
ar bækur, sem margar kynslóðir bama hafa lesið sér til
ánægju og þroska, fullnægja báðum þessum skilyrðum. Þær
eru bæði skemmtilegar og þroskandi miðað við eitthvert ald-
ursskeið, og börn mega því ekki fara á mis við þær. Því miður
fara þessir tveir kostir ekki ávallt saman í jöfnum mæli.
Ýmsar bækur, sem ritaðar eru í fræðslu- eða áminningar-
skyni og kunna að vera vel samdar, geta allt um það misst
marks; ef bömum þykja þær leiðinlegar, koma þær þeim að
engu haldi. Hins vegar hafa aðrar bamabækur ótvírætt mikið
skemmtigildi, þótt menntunar- eða þroskagildi þeirra sé lítið
og geti jafnvel verið neikvætt. Skemmtigildið er ekki ein-
hlítur mælikvarði á bækur almennt og ekki heldur bama-
bækur. Það er nauðsynlegt, en ekki nægilegt skilyrði, sem
góð barnabók verður að verða við.