Skírnir - 01.01.1963, Blaðsíða 118
STEFÁN GUÐNASON:
UM VEIÐISKAP OG AFLABRÖGÐ
í HORNAFIRÐI.
Hornafjörður.
Svo sem kunnugt er, er Hornafjörður lón, mesta lón á
landi hér. Samband hans við útsæinn er um allmikinn ós,
sem sjór fellur inn og út um með sjávarföllum. Vestanmegin
óssins er klettaey, sem nefnist Hvanney, og í vestur frá henni
sand- og malarrif, nefnt Vesturfjörur, sem tengist ekki landi
fyrr en vestur á Mýrum, mörgum kílómetrum vestan við ós.
Austan að ósnum liggur sandtangi, Austurfjörutangi, sem er
vesturendinn á öðru miklu sandrifi, Austurfjörunum, sem
einnig eru nokkurra kílómetra langar og eru landfastar ekki
langt frá Vesturhorni. Þessi tvenn rif eða fjörur, Vestur-
fjörur og Austurfjörur, mynda umgjörð fjarðarins á tvo vegu,
sveitir, Nes og Mýrar, á hina tvo.
Að öllum jafnaði er aðeins einn ós á firðinum, en komið
hefur fyrir með margra ára millibili, að annað útfall hafi
myndazt vestan Hvanneyjar og ósarnir þá verið tveir um
stund, en vesturósinn fyllt aftur von bráðar.
Fjörurnar eru takmörk tveggja ólíkra heima. Utan við þær
er ólgandi útsær Atlantshafsins, innan við sléttsævi fjarðar-
ins. Ytra fjöruborðið lemur óbrotin lithafsaldan, tíðum með
stórbrimi; innfjarðar leikur í hæsta lagi smávindbára við
fjörusandinn.
Öll samskipti hafsins og fjarðarins fara um ósinn. Á liggj-
andanum, háf jöru og háflæði, er kyrrð á straumnum í ósnum,
sem annars er alltaf einhver, út eða inn, og sé logn, er þá
engin hreyfing á vatninu nema úthafsaldan, sem hryggjar sig
eftir haffletinum alla leið inn í óskjaftinn og hrotnar við
klettana og Hleinina að vestan og Austurfjörutangann að
austan.