Jón á Bægisá - 01.12.2010, Qupperneq 48
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir
jafna stöðu kvenna. Blake var því femínisti í nánast nútímalegum skiln-
ingi þess orðs.1
Hugmyndir rómantíkurinnar um mannshugann eru ekki síst komnar
frá enska heimspekingnum John Locke sem talaði um hið nýfædda barn
sem tabula rasa og hugann sem spegil er endurspeglaði þær skynjanir og
upplifanir sem hann yrði fyrir.2 Til Lockes má að einhverju leyti rekja
áherslu rómantískra skálda á upplifunina og reynsluna af hinu háleita.
William Blake gagnrýndi þó Locke ótæpilega, taldi manninn ekki einung-
is vera náttúrlegt fyrirbæri, heldur lagði Blake einnig áherslu á möguleika
mannsins til að öðlast reynslu af hinu yfirskilvitlega gegnum ímyndunar-
aflið og taldi það sérstakan eiginleika mannshugans. Blake var þannig
andsnúinn náttúrunni í vissum skilningi. Hann taldi hinn náttúrlega
heim jafnvel ekki vera sköpun Guðs, hinn náttúrlegi heimur væri dauður
í eðli sínu, hverfull, tímabundinn, og að sá maður sem teldi sig einungis
vera hluta hins náttúrlega heims væri dæmdur til djúprar örvæntingar og
einangrunar. Þannig eru lýsingar Blakes á helvíti, fyrst og fremst lýsingar á
hugarangist þess manns er telur sig þess ekki umkominn að geta upplifað
neitt æðra og háleitara en sjálf náttúran hefur upp á að bjóða.3 Blake sagðist
sjá margfalt með auganu. Annars vegar sæi hann hinn dauflynda efnislega
heim og hins vegar sæi hann með augum ímyndunaraflsins bæði engla og
aðra heima, og hugnaðist honum beiting ímyndunaraflsins betur en köld
skynsemishyggja og kreddubundin efnishyggja.
Ekki er hægt að segja annað en að William Blake hafi litið á sjálfan sig
sem spámann í anda spámanna Gamla testamentisins. I frönsku bylting-
unni fann hann efnivið í spádóma sína sem blandast saman við spár Opin-
berunarbókarinnar um upphaf hins nýja heims. Þessi spámannlega upp-
hafning skáldsins er að sumu leyti einkennandi fyrir rómantíska tímabilið,
og vert er að hafa í huga að þótt Blake tali oft sem spámaður geta orð hans
haft sterkar félagslegar og stjórnmálalegar tilvísanir til hans eigin samtíma,
enda hafði Blake sterkar skoðanir á samtíma sínum og þeim atburðum sem
hann varð vitni að.
Við sem skrifum um bókmenntir á íyrri hluta 21. aldar, á þeim dögum
þegar heimurinn er afhelgaður, útskýrður til hlítar af raunvísindunum og
krufinn niður í frumeiningar sínar, eigum erfitt með að skilja þá tilfinn-
ingu fyrir hinu háleita, fagra og fullkomna, því sem er sublimis eða sublime
sem Blake og samtímamenn hans upplifðu.4 Við upplifum ekki lengur
1 Sjá umræðu í Day.
2 Day, loc. 847-856.
3 Sjá bók Lauru Quinney.
4 Sjá m.a. umræðu í bókinni Tbe Sublime eftir Philip Shaw.
46
á .jSr/ysbá - Tímarit um þýðingar nr. 14 / 2010