Skírnir - 01.04.2013, Page 37
SKÍRNIR
VALDIÐ FÆRT TIL FÓLKSINS?
35
á tillögum ráðsins, einungis breytingar á orðalagi („Alþingi á ekki
að breyta tillögum stjórnlagaráðs" 2012).16 Einnig var þjóðin spurð
að því hvort hún vildi að í nýrri stjórnarskrá yrði ákvæði um að „til-
tekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í
þjóðaratkvæðagreiðslu“. Fullkomlega óljóst er hvað svar við þessu
fól í sér. Tillaga stjórnlagaráðs um að tíu af hundraði kjósenda gætu
krafist þjóðaratkvæðagreiðslu virðist engu hafa skipt í þessu sam-
hengi.
Vinnuhópur um siðferði og starfshætti vakti sérstaka athygli á
því að skortur á fagmennsku og vantrú á fræðilegum röksemdum
væri meinsemd í íslenskum stjórnmálum (Vinnuhópur 2010: 184).
Þar segir í umræðu um íslenska stjórnmálamenningu: „Það er mikil-
vægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum
stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í
sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefj-
ast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin,
ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu
lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils“ (Vinnuhópur 2010: 180).
Nokkrir helstu fræðimenn þjóðarinnar á sviði stjórnlaga og stjórn-
málafræði hafa minnt á mikilvægi þess að viðhafa vönduð vinnu-
brögð við samningu nýrrar stjórnarskrár.17 Ljóst þurfi að vera
hvaða vanda í núverandi stjórnkerfi nýmæli í stjórnarskrá eigi að
leysa og byggja verði tillögur á rannsóknum á reynslu annarra þjóða
af þeim atriðum sem nýmælin ná til. Einnig hefur verið ítrekað bent
á að gefa þurfi nægan tíma til að ígrunda það vandlega hvaða áhrif
breytingar á stjórnarskránni kunni að hafa á stjórnskipan og
stjórnarfar í landinu. I stað þess að taka þessar málefnalegu ábend-
16 Þorvaldur setti þessa afstöðu skýrt fram fyrir kosningarnar. Aðrir talsmenn
stjórnlagaráðs voru ósammála þessu viðhorfi, sbr. Ari Teitsson og Salvör Nor-
dal 2012.
17 Sbr. fundaröðina „Stjórnarskráin og lýðræðið" sem fjórir háskólar hafa staðið
að. Fræðimennirnir hafa almennt gagnrýnt þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa
verið. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, rakti gagnrýni sína
í viðtali við Morgunblaðið 13. desember 2012: „Gagnrýnir „óvissuferð" stjórn-
lagaráðs". f þættinum „Sunnudagsspjall um hugmyndir, gamlar og nýjar“ á RÚV
6. janúar 2013, lýsti Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, sig ósam-
mála gagnrýni fræðimanna.