Skírnir - 01.04.2013, Page 66
64
EYJA M. BRYNJARSDÓTTIR
SKÍRNIR
að hvor aðili um sig hafi fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvað
hinn sé að segja og leggi sig ekki eftir að hlusta almennilega á það sem
er raunverulega verið að reyna að koma á framfæri. Þessi stíll getur
líka fælt fólk frá umræðu einfaldlega vegna þess að það lítur á það
sem tímasóun að standa í sífelldu þrasi um keisarans skegg og spyrja
má hvort mótherjastíllinn sé endilega besta leiðin til að komast að
kjarna málsins, fá fram ólík sjónarmið eða komast að réttri niður-
stöðu. Það getur vel verið að þessi aðferð leiði okkur stundum í
sannleika um einhverja hluti, en ekki endilega þá sem við teljum
mikilvægt að ná fram niðurstöðu um.
Fólk sem af einhverjum ástæðum er óöruggt með sig gagnvart
mótherjastílnum, kannski vegna skorts á þjálfun í rökleikni eða
vegna þess að það er af einhverjum ástæðum viðkvæmt fyrir því sem
það upplifir sem árásir, á það til að veigra sér við því að taka þátt í
umræðum. Það óttast þá að verða skotið í kaf fyrir syndir eins og
ónákvæmt orðalag, rökvillur eða ósamkvæmni. Þeir sem tilheyra
þjóðfélagshópum sem eru á einn eða annan hátt undirskipaðir í sam-
félaginu eru oft viðkvæmari í þessu sambandi og þannig getur rök-
leiknin orðið að tæki hinna valdameiri til að þagga niður í hinum
valdaminni (Burrow 2010; Rooney 2010).
Sú mynd sem fólk gerir sér oft af gagnrýninni hugsun felur í sér
að hún sé eitthvað sem fólk stundar í einrúmi. Einstaklingurinn
stillir þar upp rökfærslu og greinir, fer yfir forsendur og gætir að
því hvort niðurstöðuna leiði af þeim. Hann gætir þess að byggja
eigin málflutning á gildum rökum og grandskoðar málflutning ann-
arra og kannar hvort hann finni þar einhverjar rökvillur. Þegar fólk
sem er kannski á öndverðum meiði talar svo saman fer það að met-
ast um hvor státi af betri eða „gagnrýnni“ málflutningi. En það er
einmitt þessi mynd sem felur í sér hinn fráhrindandi mótherjastíl.
Guðmundur Heiðar Frímannsson gerir samvinnu í gagnrýninni
hugsun að umtalsefni: „Gagnrýnin hugsun er jafn mikilvæg í sam-
vinnu við aðra og í eigin glímu við viðfangsefnin. Á það hefur oft
verið bent að manneskjurnar hugsa oft og rökræða saman til að
leysa ráðgátur í vísindum og fræðum. En sama á við miklu víðar í
mannlífinu, í fyrirtækjum, í stofnunum, í félögum, í stjórnmálum, í
fjölskyldum. Það er ekki nokkur ástæða til að líta fram hjá því að í