Skírnir - 01.04.2013, Page 174
172
SVERRIR JAKOBSSON
SKÍRNIR
að tryggja þá niðurstöðu en Guðný Böðvarsdóttir og Ari hinn
sterki.
Allir systursynir Einars Þorgilssonar, synir Gunnsteins Þóris-
sonar, voru prestvígðir. Svo var einnig um syni Snorra Húnboga-
sonar, Skarðverja. Þetta virðist einkenna þær höfðingjaættir sem
héldu sig til hlés samfara uppgangi Sturlunga, að í þeim eru prestar
áberandi. Árið 1190 var skilið á milli andlegs valds og veraldlegs á
Islandi í kjölfar boða frá erkibiskupnum í Niðarósi. Frá þeim tíma
gátu prestar ekki verið goðorðsmenn. Þetta virðist hafa komið sér-
staklega illa niður á þeim ættum sem mögulega gátu keppt við Sturl-
unga um völd í Breiðafirði upp úr 1190.11 Þetta er væntanlega ein
ástæða þess að Sighvatur Sturluson fékk höfuðbólið Staðarhól í
hendur fyrirhafnarlaust ári síðar, en önnur er sú að móðir hans hafði
hnekkt veldi Staðarhólsmanna þannig að þeir áttu tæplega annan
kost en að halla sér að Sighvati.
Valdakerfi Sturlunga byggðist þannig mjög á venslum við helstu
bændur í héraðinu og þar skiptu dætur Hvamm-Sturlu einnig miklu
máli. Hjónabönd þeirra öfluðu Sturlungum mikilvægra banda-
manna og má að einhverju leyti þakka það Hvamm-Sturlu en þó
sennilega enn frekar Guðnýju ekkju hans. Eins og fram hefur komið
voru Sturlungar öfundsverðir af því tengslaneti sem riðið var í
kringum þá á árunum 1180-1220, þegar Guðný var upp á sitt besta.
Það var ekki fyrr en eftir lát hennar, árið 1221, að verulegt ósætti
hófst á milli Sturlunga og þeir fóru að metast innbyrðis. Upphafið
að því voru raunar deilur Þórðar og Snorra um móðurarf sinn. í
Sturlungu kemur fram að „Guðný hafði andazt með Snorra, ok tók
hann alla gripi þá, er hon hafði átt, ok var þat mikit fé. En hon hafði
gefit áðr allt féit Sturlu, syni Þórðar, fóstra sínum. En Sighvatr tók
til sín Glerárskóga, er honum váru næstir“ (Sturlunga saga I 1946:
303). Þannig verður Guðný með óbeinum hætti völd að ósætti sona
sinna og erfingja, en þó hefur það verið afdrifaríkara að hennar naut
ekki lengur við til að tryggja samheldni ættarinnar.
11 Sjá nánar Sverri Jakobsson 2009: 161-163.