Skírnir - 01.04.2013, Page 220
218
JÓN PROPPÉ
SKÍRNIR
verk en Þorvaldur sýndi vatnslitamyndir og olíumálverk. Þannig
virtist ljóst að þeir voru langt frá því andsnúnir hinum hefðbundnu
miðlum en í blaðaviðtali kemur þó í ljós að nálgunin er óvenjuleg því
að Húbert Nói segir um málverk sín: „Þetta eru hús í borginni,
Skólavörðuhæðin, Elliheimilið Grundf,] Þjóðminjasafnið ... En ég
mála þetta eftir minni, svona eftir að myndin af húsinu eða staðnum
er búin að gerjast í undirmeðvitundinni í dálítinn tíma.“4 Málverkið
var þannig um leið einhvers konar konseptverk. Húbert Nói hafði
sett sér ákveðnar reglur við vinnslu þeirra og farið, ef svo má segja,
löngu leiðina að því að mála þessar sakleysislegu myndir. Segja má
að þetta hafi sett tóninn fyrir þá rannsókn sem hann hefur stundað
síðan í listsköpun sinni og sýnt á fleiri en þrjátíu einkasýningum og
fjölda samsýninga.
Langa leiðin
Húbert Nói er án efa þekktastur fyrir landslagsmyndir sínar, dökkar,
svarbláar og eilítið dularfullar, málaðar í mörgum lögum svo litur-
inn fær mikla dýpt og birtan virðist skína innan úr málverkunum
sjálfum. Þessar myndir eru af ýmsum stöðum á landinu, enda hefur
Húbert Nói farið víða, ekki síst meðan hann vann við rannsóknir í
óbyggðum með vísindamönnum Orkustofnunar. Sumir hafa séð í
þeim tilvísun í upphafsmenn landslagsmálverksins á Islandi, t.d.
Þórarin B. Þorláksson sem Húbert Nói tileinkaði málverk árið
1994, en þótt birtan í myndum hans geti minnt á birtuhrifin sem
Þórarinn og Ásgrímur Jónsson voru að reyna að fanga við upphaf
20. aldar er hér ekki allt sem sýnist. Málverkin sýna vissulega
ákveðna þekkjanlega staði og listamaðurinn hjálpar okkur að finna
þá með því að gefa upp í titli verkanna nákvæma hnattstöðu, t.d.
64°12'78"N 21°14'20"W. Verkefni hans er hins vegar ekki bara að
búa til fallega eftirmynd af íslensku landslagi heldur er myndunum
ætlað að fjalla um mun flóknari spurningar: Hvað þýðir það vera
einhvers staðar? Hvernig áttum við okkur? Hvernig byggjum við
upp heimsmynd okkar? Eins og á sýningunni 1987 fer Húbert Nói
4 „Myndir eru ekki tímabundnir atburðir“. Þjóðviljinn, 1. ágúst 1987, bls. 15.