Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Page 5
TMM 2014 · 1 5
Svanhildur Óskarsdóttir
Áttu eld?
Hugleiðingar í lok afmælisárs Árna Magnússonar1
Í Þjóðleikhúsið að kvöldi 13. nóvember síðastliðinn safnaðist skari – með
Margréti Þórhildi Danadrottningu í broddi fylkingar – til þess að halda
upp á Árna Magnússon handritasafnara. Samkoman var síðasti liðurinn í
allviðamiklu afmælishaldi; tilefnið að þennan dag voru liðin 350 ár frá því
að Árni fæddist vestur í Dölum. Að baki afmælishátíðinni, sem náði yfir
lungann úr árinu, stóð fámennt lið stofnunarinnar sem ber nafn Árna og
hafði ekki stuðning af auglýsingastofum, ímyndarsmiðum og áróðursmeist-
urum. Einhverjum kann að finnast fréttnæmt á vorum dögum að það starfar
ekki einu sinni kynningarstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum
fræðum. Hún er fjársvelt eins og ýmsar aðrar stofnanir, og hefur verið það
lengi. Á stjórnsýslusviði hennar – semsé í skrifstofuhaldinu og allri umsýslu
– eru tæplega tvö stöðugildi. Minna en tveir starfsmenn.
Afmælisár Árna Magnússonar varð okkur starfsmönnum „hans“ tækifæri
til þess að láta í okkur heyra, að freista þess að minna landsmenn á það hlut-
verk sem stofnunin á að gegna – en getur ekki rækt sómasamlega. Mest bar
e.t.v. á handritasviðinu á árinu vegna safns Árna en innan stofnunarinnar
eru önnur merk söfn og þar eru stundaðar nútímalegar rannsóknir, til
dæmis í orðfræði, máltækni og þjóðfræði svo einungis fátt sé talið. Kannski
kemur þetta einhverjum á óvart; það getur verið að myndin sem landsmenn
gera sér af Árnastofnun sé af fáeinum grúskurum sem rýni í gulnuð blöð
en hafi ekki mikil tengsl við umheiminn. Í reyndinni er hún kjarnastofnun
í rannsóknum á breiðu sviði íslenskra fræða og til hennar sækja ekki bara
Íslendingar heldur fræðimenn víða að úr heiminum. Sjálf starfa ég á hand-
ritasviðinu og flest það sem ég segi hér á eftir er tengt handritunum – en
þau má skoða sem hluta fyrir heild: margt af því sem á við um handritasvið
má yfirfæra á önnur svið og á stofnunina í heild. Afmælishaldið á liðnu ári
gekk vel og í árslok gátum við litið ánægð um öxl, okkur hafði tekist að vekja
athygli á arfi Árna og við þóttumst nokkuð viss um að landsmenn væru
almennt fróðari en áður um inntak hans og gildi.
En sé skyggnst víðar yfir sviðið er útlitið samt ekki bjart. Á afmælisári
Árna var handritasýningunni sem verið hefur í Þjóðmenningarhúsinu lokað.
Þá var jafnframt tekin ákvörðun um að stöðva allar framkvæmdir við nýja
byggingu sem á að hýsa stofnunina ásamt hluta íslensku- og menningar-