Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Síða 40
E r l a Þ ó r d í s J ó n s d ó t t i r
40 TMM 2014 · 1
– Torfadalur.
Aldrei hef ég séð svo lítinn bæ og svo pínulítið tún, en er nógu kurteis til
að þegja um það. Þegar ég hef svalað þorsta mínum og hvílst stundarkorn
ætla ég að kveðja og halda áfram för minni, því karlinn tafði mig svo með
því að pína mig til að ganga alla þessa leið. En konan biður mig að vera ögn
lengur og opnar bauk með smákökum.
– Ég fæ svo sjaldan gesti og aldrei blöð eða póst, æ, vertu svo góður að
segja mér tíðindi, af sjálfum þér og fólkinu þínu og … er eitthvað títt í
sveitinni, í landinu?
Fyrst segi ég henni af viðskiptum mínum við karlinn ljóta, svo um
drukknun föður míns formannsins og glefsur sem ég mundi úr blöðum og
slúðri og þvaðri, það stóð út úr mér buna af fréttum, því konan var svo glöð
að sjá mig og fá eitthvað að heyra.
– Þú verður einhverntíma seigur, drengur minn, sagði hún, og tók svona
vel undir allt sem ég sagði, plataði mig með gæðum sínum og hrósi til að
útbulla mig út í móa. En þá mundi ég eftir karlinum sem skakklappaðist á
eftir mér og hótaði hefndum.
– Æ, karlinn gæti komið, ég er hálfsmeykur við hann eftir að ég hrekkti
hann svona, segi ég.
– Nah, hann … flakkarar eiga ekkert erindi á þetta bláfátæka heimili,
sagði hún, döpur og þegar hún sér hvað ég verð glaður við þetta bætir hún
við: – Ég rek hann þá burt eins og rakka. Hún grípur ljáinn sem hún hafði
lagt frá sér og sveiflar …
Ég hlæ, og geng til Rauðs, vippa mér á bak og kveð hana með því að vinka
og ríð hratt burt. Ríð ég nú á skokki um stund, þykist mikill riddari upp með
mér af því hvað konan tók öllu af mikilli áfergju sem ég sagði, eins og ég væri
bráðskemmtilegur og fróður, þótt ég bara bullaði það sem ég hafði heyrt og
allir voru að tala um.
Loks kem ég að reisulegum bæ, sem ég veit að hlýtur að vera Kirkjuvogur.
Er þar allt með einstökum myndarbrag og vex aðdáun mín því nær sem
dregur. Feginn er ég að eygja loks áfangastað.
Nokkrir sandbakkar eru þarna við götuna. Þegar ég reið fyrir ysta bakk-
ann hleypur förumaðurinn skyndilega í veg fyrir mig og reynir að stöðva
mig. Það tekst ekki, en hann fælir Rauð sem hrekkur út undan sér svo að ég
er næstum fallinn af baki, hangi á hliðinni. Rauður tekur undir sig stökk og
karlinn sendir flaum af ókvæðisorðum á eftir mér, helvítið.
Ég ríð inn langa tröð sem liggur heim að bænum. Í staðinn fyrir hlið var
lagður staur fyrir tröðina. Svo mikil ferð er á Rauð eftir árás flakkarans
að hann setur í makkann undir staurinn svo hann féll, og stökk hiklaust
með mig heim í hlað. Húsfreyja heyrði mig koma og stendur í bæjardyrum
brosandi, tekur mér fagnandi. Ég flengist af baki og heilsa með handabandi.
Bóndi hennar er í róðri svo að frúin tekur við svipunni, og segist mundi sjá
til þess að verð hennar verði lagt á reikning smiðsins heima í Vogum í vissri