Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Side 80
80 TMM 2014 · 1
Steinn Steinarr
Tvö bréf til Erlends
Hver var Þóra í eftirfarandi bréfi Steins Steinars sem hér er birt ásamt öðru bréfi
hans í sama anda, vegna gamanmála bréfanna og alvöru; veit það einhver? Það
er lenska að stað- og ættfæra fólk sem kemur við sögu í brandara, kallað íslensk
fyndni, en hefur ekki höfðað til mín, ekki sérstaklega, þótt ég spyrji fyrir siða sakir.
Bréfin rakst ég á meðal gagna Erlends í unuhúsi á Landsbókasafni Íslands. Litlu
skiptir þótt ekki finnist svar, því alvaran í húmor Steins er af öðrum toga en hinum
þjóðlega; hún er heimspekileg, tilvistarleg, útlend og í anda síns tíma; alvaran er
franskra tilvistarspekinga sem strekktust við að vera gáfulegir þótt ekkert gengi upp
fyrir þeim í umróti Evrópupólitíkur áranna milli stríða, og þar um bil. Ólíkt þeim
hafa Íslendingar, menntamenn sem aðrir, sneitt hjá mótsögnum fremur en að þeir
reyndu að sigrast á mótsögum samskiptahátta á heimspekilega vísu; aulafyndnin
hefur verið látin duga.
Hún hefur verið þjóðarfylgja allt frá því á tíð stólskólanna á Hólum og í Skálholti,
hún hafði viðkomu í Bessastaðaskóla og síðan í Lærða skólanum; hún varð líflegust hjá
snillingnum Benedikt Gröndal en náði einnig fullum þrifnaði hjá öðrum alkunnum
hafnarstúdentum, svo sem Konráði, Jónasi. Fjarstæðufyndni sem áratugum síðar
varð fleirum en Steini að bjargráði, Þórbergi, Laxness, eftir að Dægradvöl Gröndals
fékkst loks gefin út 1923, – jafnvel Guðbergi. Þegar önnur sund lokuðust fyrir okkar
mönnum í hinu einsleitna íslenska þjóðfélagi og frægðin ein blasti við.
Þorsteinn Antonsson