Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Side 97
TMM 2014 · 1 97
Silja Aðalsteinsdóttir
Ár englanna og ofurfóstrunnar
Leikhúsárið 2013
Hvernig var leikhúsárið 2013 í Reykjavík? Eitthvað sérstaklega minnisstætt –
fyrir hvað það var gott, merkilegt, nú, eða vont? Á einkalista mínum kemur í
ljós að mér hafa þótt þrjár sýningar mjög áhrifamiklar, þrjár afspyrnuvondar
og afgangurinn þar á milli, er það ekki ágæt dreifing? Hér á eftir verða rifj-
aðar upp, alveg ábyrgðarlaust, eftirminnilegustu sýningarnar.
Gaman
Mesta skemmtunin sem lagt var upp til á árinu var söngleikurinn um
ofurbarnfóstruna Mary Poppins sem frumsýndur var í Borgarleikhúsinu í
febrúar undir stjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Frumsýningin tókst að vísu
ekki að öllu leyti vel því tæknin brást á versta tíma – þegar Gói var að ganga
upp vegg í hlutverki Berts sótara. En það reyndist sannarlega fararheill því
sýningin gekk og gekk fyrir fullu húsi í nærri ár.
Ástæðurnar fyrir velgengninni voru sjálfsagt margar en ein sú helsta var
einfaldlega hversu impónerandi sýningin var: stór, mannmörg, tæknileg,
litrík, fjörug – og flott. Sum dansatriðin gerðu mann alveg agndofa, til
dæmis dans sótaranna á þakinu. Þar naut húsið Íslenska dansflokksins
sem getur allt sem af honum er krafist, dansað, leikið og sungið. Önnur
ástæða var hvað Jóhanna Vigdís Arnardóttir fór vel með aðalhlutverkið.
Hún er glæsileg leikkona, átti auðvelt með að vera gustmikil í hlutverkinu
eins og við á og hefur þessa skínandi hljómmiklu og fallegu rödd sem líka
er nauðsynleg. Börnin í stærstu hlutverkunum voru eins og atvinnumenn,
fóru vel með texta bæði í söng og tali og léku óþekktarorma Bankshjónanna
af innlifun (ég sá Rán Ragnarsdóttur og Gretti Valsson en hef sannfrétt að
krakkarnir sem léku á móti þeim hafi líka verið afbragðsgóðir). Minna fór
fyrir öðrum leikurum en allir fóru þó prýðilega með sitt.
Í haust efndi Leikfélag Reykjavíkur til annarrar gamansýningar sem
einnig gekk og gekk. Það var gamli Jeppi á Fjalli eftir Holberg sem Benedikt
Erlingsson leikstýrði. Benedikt bjó til eins konar kabarettsýningu úr Jeppa
og umbúðirnar urðu nægilega miklar, bæði sviðsbúnaður og tónlistin sem
framleidd var af tónlistarmönnum á sviðinu, til að kæfa söguna af drykk-
fellda danska bóndanum sem yfirstéttin fer svo andstyggilega með. Það