Tímarit Máls og menningar - 01.03.2014, Síða 126
D ó m a r u m b æ k u r
126 TMM 2014 · 1
í síðari tíma sögu að herraþjóð afhendi
fyrrum nýlendu sinni þeirra menning-
ararf til baka. Sjá menn til dæmis fyrir
sér að Bretar muni einhvern tíma taka
til í British Museum og afhenda nýlend-
unum aftur alla fjársjóði þeirra til varð-
veislu? Þó er þetta algjörlega hliðstætt
dæmi og til marks um stórmennsku
Dana í okkar garð.
Við ættum líka að hætta að láta þá
gjalda þess að vera stundum sú þjóð sem
segir okkur til syndanna; sú þjóð sem sér
í gegnum íslenskan moðreyk og minnir
svolítið á foreldri að áminna börn sín
sem fara offari. Í aðdraganda hrunsins
voru Danir manna gagnrýnastir á
íslenska efnahagsundrið, og varð tilefni
ómaklegra skeytasendinga í þeirra garð,
og þeir virðast líka hafa tekið sér krítíska
stöðu um ágæti uppbyggingarinnar eftir
hrun. Þvert á móti ber okkur að taka
fullt mark á aðvörunarorðum þeirra –
sem og annarra – minnug þess að vinur
er sá er til vamms segir.
Þetta ágæta verk þeirra Guðjóns Frið-
rikssonar og Jóns Þ. Þór er, jafnhliða því
sem það er barmafullt af fróðleik og
skemmtun, gott og mikilvægt framlag
til bættra gagnkvæmra samskipta við
Danmörku.
Aðalsteinn Ingólfsson
Þjóðarspegill
Inga Lára Baldvinsdóttir: Sigfús
Eymundsson; Myndasmiður. Þjóð-
minjasafn Íslands, 2012, 196 bls.
Ljósmyndin er einn helsti listmiðill sam-
tímans og ákaflega þýðingarmikil í lista-
sögunni, bæði sem slík, ekki síst um átt-
unda áratug síðustu aldar þegar mikið
fór fyrir konseptljósmyndun, og eins
notuðu málsmetandi listmálarar ljós-
myndir alveg frá lokum fyrri heimsstyrj-
aldar og fram á fimmta áratuginn; meðal
áhugasamra notenda hennar voru
Jóhannes Kjarval, Gunnlaugur Scheving
(hvers stærstu málverk voru, merkilegt
nokk, byggð á grámuskulegum ljós-
myndum úr Morgunblaðinu ), Nína
Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir.
Og er þá ótalin ómæld þýðing ljósmynd-
arinnar fyrir íslenska listasögu á 19. öld.
Það er bjargföst sannfæring mín að
myndlist spretti fyrst og síðast af mynd-
um, ekki skáldskap, þjóðrækni eða ósk-
hyggju. Og sú hugmynd að Ísland hafi
verið myndlaust land á 19. öld eins og
mætti skilja á nýlegri Íslenskri listasögu
er alls ekki rétt.
Í héraði skörtuðu margar kirkjur alt-
aristöflum af einhverju tagi, skreyting-
um og formfögrum kirkjugripum sem
sóknarbörn fengu augum litið við hverja
guðsþjónustu. Listilega útskornir munir
og glæsilegir textílar fyrirfundust meðal
helstu höfðingja upp til sveita, þangað
sem margir almúgamenn áttu erindi. Í
Reykjavík fór ekki framhjá sæmilega
upplýstu fólki prentlist Jóns Helgasonar,
verðandi biskups; einkum og sérílagi
dægilegar skrásetningar hans á húsa-
kosti bæjarbúa og náttúrunni í kring, né
heldur fugla- og dýramyndir Benedikts
Gröndal. Norður í landi kom sjálflærður
málari, Arngrímur Gíslason, til móts við
þarfir þeirra sem vildu eftirláta afkom-
endum andlitsmyndir sínar í varanlegu
formi, og umflakkandi atvinnuteiknari,
Sölvi Helgason, gerði bændum einnig
frumstæð portrett sem greiðslu fyrir
húsaskjól og beina. Og þá er ógetið
teikninganna og málverkanna sem Sig-
urður Guðmundsson lét eftir sig og nor-
rænu málverkanna sem Björn Björnsson
gaf þjóðinni og héngu uppi í Alþingis-
húsinu frá 1885.