Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Síða 28
Á s d í s R . M a g n ú s d ó t t i r
28 TMM 2018 · 3
enda dreymir stúlkuna ekki í þessari sögu; hér lifir Fríða ekki því tvöfalda lífi
sem einkennir frásögn Mme de Villeneuve. Hér er það pabbinn sem fær heita
súkkulaðið morguninn eftir fyrstu nótt sína í höllinni, rétt áður en hann
tekur rósina. Þegar Fríða játast loks Dýrinu sneiðir Beaumont hjá nóttinni
sem var svo fyrirkvíðanleg og lætur Dýrið breytast með eins konar hókuspó-
kus í myndarlegan prins. Allt kemur þetta Fríðu „skemmtilega á óvart“ en
hún finnur alls enga löngun hjá sér til að kyssa þennan fallega unga mann. Í
meðförum Mme Leprince de Beaumont er sagan um Fríðu og Dýrið fyrst og
fremst dæmisaga um það hvernig góð stúlka eigi að haga sér. Fríða er einstök
í sögunni; hún er þrautseig, þolinmóð, falleg, blíðlynd og glaðlynd, góð og
fórnfús og það margborgar sig! Systur hennar eru gráðugar, hrokafullar og
afbrýðisamar og í sögulok er þeim grimmilega refsað af álfkonu. Svo er ekki
í gerð Mme de Villeneuve; þar eru þær boðnar til brúðkaupsins ásamt allri
fjölskyldu Fríðu.
Kver Mme Leprince de Beaumont var notað um alla Evrópu sem kennslu-
bók í frönsku og var endurútgefið ótal sinnum og þýtt.25 Þannig breiddist
sagan um Fríðu og Dýrið út í styttri og einfaldaðri gerð þar sem lítið var gert
úr þeim frásagnarstíl sem einkenndi skáldsögur tímabilsins og þeim þáttum
verksins sem ætla má að hafi höfðað hvað mest til lesendahóps Mme de
Villeneuve. Bókin kom út á dönsku á árunum 1763–1764 í þýðingu Johans
Christians Schønheyder sem hugsanlega studdist við þýska þýðingu eins og
algengt var í Danmörku þegar þýtt var úr frönsku.26
Þessi breytta frásögn barst alla leið til Íslands strax undir lok 18. aldar
þegar fyrstu ritin fyrir börn voru gefin út á íslensku og sögur þýddar. Hvatinn
að þeim útgáfum var viðleitni menntamanna til þess að uppfræða almenning,
börn þar með talin, í anda upplýsingarinnar.27 Lærdómsmenn sömdu því og
þýddu fjölmörg rit í þeim tilgangi, bæði almenns eðlis og skáldverk. Hannes
biskup Finnsson var einn þeirra Íslendinga sem sendu frá sér ritsmíðar sem
ætlaðar voru almenningi á þessum tíma, t.d. í alþýðulestrarbókina Qvöld-
vökurnar 1794 sem kom út í tveimur bindum árin 1796 og 1797. Þar er að
finna efni af ýmsu tagi, meðal annars nokkrar af fyrstu sögunum fyrir börn
og unglinga sem þýddar voru á íslensku. Í fróðlegum inngangsorðum Hann-
esar kemur fram að hann vill í senn fræða og skemmta lesendum með þeim
textum sem hann hefur valið í kverið því hann er meðvitaður um að ekki
má ofgera börnum og ungmennum með lestri trúarlegra rita.28 Í þýðingu
hans nefnist ævintýri Mme de Beaumont Um skrýmslið góða. Hannes lagði
meðal annars stund á frönskunám í Kaupmannahöfn og mun honum hafa
staðið til boða að gerast þýðandi við hirð Frakklandskonungs.29 Ekki er þó
víst að hann hafi þýtt Fríðu og Dýrið beint úr frönsku. Hann sleppir til að
mynda kakóbollanum og setur „frókost“ í hans stað. Svona þýðir hann loka-
orð sögunnar þegar álfkona hrósar Fríðu fyrir að hafa valið rétt en refsar
systrum hennar:
TMM_3_2018.indd 28 23.8.2018 14:19