Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Side 48
S i g u r ð u r S k ú l a s o n
48 TMM 2018 · 3
Peter Hall leggur mikla áherslu á þetta atriði og talar um helgi línunnar (þ. e.
að leika línu sem heild frekar en einstök orð). Þetta er í samræmi við það sem
Helgi Hálfdanarson segir: „Þar [í stakhendunni] eru ljóðlínur ekki hnepptar
saman tvær eða fleiri, með rími né annarri formreglu, svo að í rauninni er
hver ljóðlína sérstök brageining.“14 Þetta er grundvallaratriði: Hver ljóðlína
er í rauninni sérstök brageining.
En auðvitað ber víða við að tvær línur (eða fleiri) tengjast saman í hugsun,
í tilfinningu. Og í íslenskri þýðingu þar sem ljóðstafasetningu er beitt er
stundum greinileg tenging milli lína (þ.e. þegar stuðlar og höfuðstafur fara
saman). Þá þarf að þræða þær með því að fara bil beggja og hvorki höggva þær
í sundur né buna þeim út í eitt. Leikarinn veit hvar ein lína endar og önnur
tekur við og fléttar við hugsun eða tilfinningu persónunnar. Hér má einnig
benda á hvað ljóðstafir eru flytjendum bundins máls mikil stoð, því alla jafna
eru þeir á áhersluatkvæði, auk þess sem þeir eru mikil hjálp við að læra línur.
Og úr því minnst er á línur og línulengd þá eru ekki allar línur jafnlangar
hjá Shakespeare. Sumar eru stuttar, kannski bara með sjö atkvæði eða sex
eða jafnvel enn færri. Hér er hugsanlegt að höfundur sé að gefa vísbendingu.
Þegar lína er stutt getum við verið nokkuð viss um að Shakespeare vilji gefa
til kynna dok eða þögn af einhverju tagi og það segir okkur eitthvað, venju-
lega um ætlun persónunnar.15
Shakespeare notar einnig svokallaðar deildar línur í verkum sínum. Þá
skipta tvær persónur (eða fleiri) einni línu á milli sín. Þar með er gefið í skyn
að leikararnir taki umsvifalaust við hver af öðrum – að þar sé engin þögn. En
að sjálfsögðu eru þetta aðeins vísbendingar, við getum aldrei verið hundrað
prósent viss. Allt eru þetta möguleikar, ekki lög. Við verðum að láta reyna á
þetta sjálf.
Að lokum má nefna eitt atriði til viðbótar: andstæður (e. antithesis). Shake-
speare hefur greinilega mikið yndi af að tefla fram andstæðum merkingum
og myndum, þ.e. einu orði gegn öðru orði gagnstæðrar merkingar, eða orða-
mynd gegn orðamynd. Hér má taka sem dæmi orð Hamlets: að vera eða ekki
vera (to be or not to be) eða orð Hinriks fimmta: en dulbúa sitt spektar-eðli í
hrjúfan berserks ham (Disguise fair nature with hard-favoured rage). Í öllum
verkum hans úir og grúir af slíkum andstæðum. Og til þess að móta og skýra
hugsunina þarf leikarinn að leggja áherslu á þessar andstæðu myndir. Hann
þarf bókstaflega að teikna þær upp, setja þá orð gegn orði eins og segir hreint
út í Ríkarði öðrum.16
Útgangspunkturinn er ávallt og ævinlega þessi spurning: Hvað er á seyði í
textanum? Hvernig er hann í laginu? Hvað felst í línunni, í orðunum sjálfum?
Hvernig er þeim raðað saman? Hvaða orð bera áherslu og hvers vegna?
TMM_3_2018.indd 48 23.8.2018 14:19