Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Blaðsíða 6
TIL LESENDA
Efni Árbókar er fjölbreytt að vanda og spannar bæði vítt tímasvið og ólík
viðfangsefni – gripi, tímatal, fornleifaskráningu og örnefni svo eitthvað sé
nefnt. Tvær greinar af mjög ólíkum toga fjalla um gripi. Í yfirgripsmikilli
samantekt leitast þær Guðrún Alda Gísladóttir og Mjöll Snæsdóttir við að
rekja gerðir kamba í tímaröð allt frá landnámi fram til 1800, en þeir eru
algengir fundir á íslenskum minjastöðum og taka miklum breytingum í
aldanna rás. Kambar eru innf luttir gripir og sama á við um porfýrsteina,
sem eru umfjöllunarefni Hólmfríðar Sveinsdóttur, þótt þeir séu öllu
fágætari og lengra að komnir, upphaf lega alla leið frá Egyptalandi og
Grikklandi. Hér birtist samantekt um alla slíka steina sem hafa fundist á
Íslandi þar sem þeir gegndu f lestir hlutverki altarissteina þótt þeir eigi sér
lengri og fjölbreyttari notkunarsögu.
Árni Hjartarson fjallar í grein sinni um nýjar rannsóknir á aldri 10.
aldar gjóskulags úr Eldgjá, sem sýnt hefur verið fram á að sé nokkrum
árum yngra en áður var talið. Hann bendir á að endurmeta þurfi aldur
landnámslagsins í þessu ljósi, og líklegt sé að það sé frá 877 eða þar um bil.
Gylfi Helgason, Alexandra Tyas og Ragnar Edvardsson kynna fyrstu
niðurstöður rannsókna á nokkrum hvalveiðistöðvum Norðmanna á
Vestfjörðum frá 19. öld, en þær hafa nú verið skráðar og kortlagðar
nákvæmlega. Ágústa Edwald Maxwell segir frá frumrannsókn á Vestur-
búðarhól á Eyrarbakka. Þar er kynntur til sögunnar nýstárlegur vinkill,
samfélagsfornleifafræði, þar sem almenningur er hafður með í ráðum í
fornleifarannsóknum. Myndaþátturinn í ár tengist óbeint svipuðum
hugmyndum en í honum birtast myndir af uppáhaldsstöðum eða -gripum
bæði fornleifafræðinga og leikmanna. Forvitnilegt er að sjá hvað það
er sem ljær hlutum eða stöðum þennan sess – til dæmis minningar eða
óráðnar gátur sem vekja forvitni og áhuga. Síðast en ekki síst rifjar Helgi
Skúli Kjartansson upp náttúrunafnakenningu Þórhalls Vilmundarsonar
sem olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma, einna helst því hann dró í efa
örnefnaskýringar fornrita. Gagnlegt er að hafa hugmyndir Þórhalls
samandregnar á einum stað, en þær birtust upphaf lega í skrifum hér og þar
og reynast fela í sér ýmsa þræði sem sjaldan er fjallað um.
Sú breyting hefur verið gerð á kápu Árbókar að númer aftan við heiti
bókar hefur verið fjarlægt. Í staðinn er nú vísað til númers á hefti, bæði