Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 95
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS94
töluverðu raski. Markmið rannsóknarinnar á Vesturbúðarhól haustið 2017
var að kanna umfang, aldur og varðveisluskilyrði fornleifa á minjastaðnum,
til að taka fyrsta skrefið til frekari rannsókna og samfélagverkefnis eins og
nefnt var í inngangi.
Umfang
Dagana 10.‒14. júlí 2017 fóru fram jarðsjármælingar á Vesturbúðarhól.
Markmið þeirra var að meta eðli og umfang minjanna sem þar eru
undir sverði. Þrjár mismunandi mælingar voru gerðar: viðnámsmæling,
segulmæling og radarmæling. Ekki er mikil reynsla af mismunandi
jarðsjármælingum á Íslandi og búnaður til slíkra athugana nær hvergi til.
Því hafði höfundur samband við starfsfólk Grampus Heritage á Englandi.
Starfsmenn fyrirtækisins höfðu áður komið til Íslands til mælinga og
lögðu til að hvort tveggja segulmælingar og viðnámsmælingar yrðu
framkvæmdar. Vegna ungs aldurs minjanna og nýlegs niðurrifs þeirra, í
fornleifafræðilegu samhengi, þótti ólíklegt að mælingarnar myndu skila
skýrum niðurstöðum. Höfundur tók þess vegna þá ákvörðun að reyna
einnig radarmælingar á svæðinu en Háskóli Íslands á tæki til þess konar
mælinga. Radarmælingarnar voru framkvæmdar af höfundi með aðstoð
Steinunnar Kristjánsdóttur (sjá myndir 8‒10). Niðurstöður viðnáms-
og seglumælinganna skiluðu góðum niðurstöðum, þvert á væntingar
mælingamanna, en niðurstöður radarmælinga bíða enn úrvinnslu.
Segulmælingarnar reyndust mjög vel á minjastaðnum (sjá mynd 11).
Segulsvið sendins jarðvegsins er stöðugt og því sjást veggir og annað rask
vel. Sérstaklega er mikill munur á milli segulsviðs hins óraskaða jarðvegs og
hraungrýtisins sem nýtt var sem byggingarefni og því sjást grunnar húsanna
vel. Mælingarnar sýndu auk útlína Vesturbúðarinnar, eins og hún er þekkt
frá 20. öld, f leiri byggingar/rask vestan við verslunarhúsasamstæðuna.
Þar getur verið um að ræða timburgeymslu verslunarinnar ásamt öðrum,
hugsan lega seinni tíma byggingum. Þær sýndu líka jarðvegsrask syðst og
vestast á svæðinu sem virðist vera á meira dýpi og líklega eldra. Þá kom í
ljós hleðsla sem hugsanlega er gamall túngarður vestast á minjasvæðinu.
Viðnámsmælingarnar, sem einnig tókust vel, gáfu mjög svipaða mynd
og segulmælingarnar (sjá mynd 12). Þó var ekki unnt að gera mælingar
norðvestast á minjasvæðinu þar sem mælingatækið virkar ekki á svo hörðum
jarðvegi. Nokkrar nýjar vísbendingar um rask sáust á viðnámsmælingunum
vestan við hina eiginlegu Vesturbúð.
Jarðsjármælingarnar sýndu fram á svo ekki verður um villst að miklar