Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Side 109
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS108
sinn að rekja til Lakóníu á Grikklandi en auk þess hefur fundist hérlendis
purpurarauður porfýrsteinn sem er af egypsku bergi brotinn, nánar tiltekið
frá Mons Porphyrites. Steinar af þessari gerð voru f luttir í miklum mæli til
Rómaveldis þar sem þeir voru eftirsóttur efniviður í skreytingar bygginga,
oft keisaralegra, en námuvinnsla á þessum stöðum í Egyptalandi og
Grikklandi virðist hafa lagst af fyrir lok 5. aldar e.Kr.2 Því er talið að þeir
porfýrsteinar sem fundist hafa í miðaldasamhengi í Norðvestur-Evrópu,
líkt og íslensku altarissteinarnir, hafi verið endurnýttur efniviður eða spolia
úr rómverskum gólf- og veggskreytingum.3
Porfýrsteinarnir hafa þrátt fyrir áhugaverðan uppruna lítið verið
rannsakaðir hér á landi í samanburði við aðra gripi sem einnig hafa
borist langt að, svo sem víkingaaldarperlur og rómverska peninga. Þó að
greinargóð samantekt á íslenskum altarissteinum liggi fyrir4 hefur verið
á reiki hvaða steina megi f lokka sem porfýrsteina þar sem greining og
heildstæð samantekt hefur ekki verið gerð á efnisf lokknum hingað til. Hér
verður tekin saman heildstæð skrá yfir varðveitta og jarðfundna porfýrgripi
á Íslandi en til að taka af vafa um bergfræði gripanna voru þeir greindir
undir leiðsögn jarðfornleifafræðingsins Sólveigar Guðmundsdóttur Beck.
Leitast verður við að varpa ljósi á uppruna steinanna, dreifingu þeirra og
notkun hérlendis með hliðsjón af kenningum fræðimanna um notkun
porfýrs í Norðvestur-Evrópu á miðöldum. Auk þess verður reynt að
ráða í hlutverk gripanna og þá merkingu sem var lögð í þá sem litríka
altarissteina úr innf luttum efniviði. Kennilegri nálgun ævisögulegrar
aðferðar Kopytoffs verður að lokum beitt á fundasafnið til að varpa frekara
ljósi á f lókna notkunarsögu gripanna.
Porfýr
Á síðustu áratugum hafa fundist nokkrir gripir úr bergtegundinni porfýr
við fornleifarannsóknir á Íslandi. Þeir hafa bæst í hóp porfýrgripa á
Þjóðminjasafni Íslands, sem borist hafa safninu sem kirkjugripir. Porfýr er
storkuberg og hefur kristalla sem geta orðið 0,5-1 cm stórir, oftast feldspar-
eða kvarskristalla, og eru jafnan ljósari að lit en bergið sjálft.5 Porfýr er að
finna víða um heim og í ólíkum litum en þekktustu gerðir hans eru rauði
og græni porfýrinn sem koma upprunalega frá Egyptalandi og Grikklandi.
2 Del Bufalo 2012, bls. 61; Peacock 1997, bls. 712; Lynn 1984, bls. 19.
3 Tesch 2014.
4 Sjá Hildigunni Skúladóttur 2011.
5 Lynn 1984, bls. 19.