Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 164
163UPPRIFJUN UM NÁTTÚRUNAFNAKENNINGU
Ending verður að viðskeyti:
• Böggustaðir > Böggvisstaðir
• Steinastaðir > Steinarsstaðir
• Viðskeyti að samsetningarlið:
• Kallaðarnes > Kaldrananes
Og alveg sérstaklega að ending verði að nýjum stofni og myndi samsetningu
með þeim fyrri (sem stundum breytist líka):
• Brennu-/Brennistaðir > Bröndólfstaðir
• Hafursstaðir > Hafþórsstaðir
• Meiðarstaðir > Meiríðarstaðir
• Mýlastaðir > Mýlaugsstaðir
• Silfrastaðir > … > Silfrúnarstaðir
• Tundrastaðir > Tindriðastaðir
• Þyrisvellir > Þiðriksvellir
Nöfn af þessu tagi hafði Þórhallur kallað „aukin miðstofni“. Þau tók
Friðrik Magnússon til sérstakrar athugunar í grein sinni, „Leyndardómur
miðstofnsins“.33 Hann sýnir skýrt og greinilega að breytingar sem þessar
eru ekki á neinn hátt reglubundnar eða fyrirsjáanlegar, varla einu sinni
„alþýðuskýringar“ að því leyti að nöfnin séu skiljanlegri eftir breytinguna.
Þannig er auðvitað ekkert torskilið við nöfn eins og Brennustaði eða
Steinastaði eða Skollatungu, fæstum hins vegar töm „kvenmannsnöfnin“
Meiríður (eða Mýríður sem líka hefur verið lesið úr bæjarnafninu),
Mýlaug eða Silfrún. Þetta á ekki aðeins við um miðstofnana heldur hinar
breytingarnar líka; þær eru óreglulegar og ófyrirsjáanlegar.
En hversu ósennilegar eða ástæðulausar sem þessar breytingar kunna
að virðast, þá eru þær staðfestar af heimildum, og f leiri þeim líkar. Þær
hafa gerst á ýmsum tímum, einhverjar varla fyrr en á 17. öld, aðrar svo
snemma að báðar nafnmyndirnar finnast í fornritum. Og eiga það helst
sammerkt – ekki allar en margar – að eftir breytinguna virðast þær dregnar
af mannsnafni.
Úr því að svona breytingar gerðust á annað borð, og það svo snemma
að sumra sér merki í sjálfri Landnámabók, þá væri býsna lygileg tilviljun
að þær hafi einungis gerst í þeim tilvikum sem hægt er að sannreyna. Hitt
er nánast óhjákvæmilegt að af fjölmörgum umbreyttum nöfnum sé aðeins
varðveitt yngri myndin, og að hún líti þá oftar en ekki út fyrir að vera
mynduð af mannsnafni. Nákvæmlega hvaða nöfn það eru sem þannig hafa
33 Friðrik Magnússon 1986 (heitið sótt í einn af fyrirlestrum Þórhalls). Upphaflega námskeiðsritgerð,
Eiríki Rögnvaldssyni og Svavari Sigmundssyni þökkuð ráðgjöf.