Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 205
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS204
áróðursrit á íslensku eru hér til umfjöllunar. Karl Jónsson ábóti skrifaði
Sverris sögu á íslensku en það gerði hann að undirlagi konungs sjálfs og líklega
að miklum hluta í Noregi. Ekki er vitað fyrir víst að Þingeyramunkarnir
Gunnlaugur Leifsson og Oddur Snorrason hafi ritað annað en á latínu (ef
undan er skilin Merlínuspá hins fyrrnefnda). Fyrr í ritinu segir að sögur sem
gerast í Húnaþingi, svo sem Grettis saga og Bandamanna saga, hafi mögulega
verið samdar á Þingeyrum (bls. 129). Ef slík eru ‘áróðursritin’ sem minnst
er á þá væri fróðlegt að heyra hvernig þau kynnu að hafa nýst höfðingjum
í meintu stríði þeirra við páfann.
Ein megin hugmynd bókarinnar er að klaustur á Íslandi hafi verið
fjórtán og ekki færri. Fyrri fræðimenn virðast samkvæmt þessu ekki
hafa áttað sig á réttum fjölda klaustra. Höfundur tekur sem dæmi útgáfu
Miðaldastofnunar Íslensk klausturmenning á miðöldum (2016) þar sem bregður
fyrir ‘gamalkunnri sýn á klaustrin’ þar sem þau eru sögð hafa verið ‘níu
talsins en ekki 14 eins og þau urðu’ (bls. 54). Þetta er nokkuð villandi
því Gunnar Harðarson segir í umræddu riti að níu varanleg klaustur hafi
starfað til siðaskipta en önnur skemur (Íslensk klausturmenning á miðöldum,
bls. 313).
Eitt klaustranna fjórtán er sagt vera Bæjarklaustur í Borgarfirði og er um
það, eins og önnur klaustur, fjallað í sérstökum kaf la. Hverjar eru heimildir
fyrir tilvist þessa klausturs? Sagt er að ‘[s]kjöl bendi til að kirkjuhald hafi fyrst
hafist í Bæ þegar klaustrið þar kom til sögunnar 30 árum eftir kristnitöku’
(bls. 69). Vitnað er í Íslenzk fornrit I, bls. 483 og er líklegt að lesandi treysti
því að hér sé vísað í ‘skjöl’ um Bæjarklaustur. Svo er ekki. Tilvísunin er til
skýringar við máldaga Viðeyjarklausturs frá 1226 (ártal samkvæmt Íslenzku
fornbréfasafni). Þar er stuttlega gerð grein fyrir klaustrum á Íslandi og tiltekið
að fyrsta klaustur á landinu var stofnað að Bæ í Borgarfirði af Hróðólfi
um 1030. Heimildin er eftirfarandi málsgrein: ‘En er Hróðólfr byskup
fór brott ór Bœ, þar er hann hafði búit, þá váru þar eptir munkar þrír’
(Íslenzk fornrit I: fyrri hluti, bls. 65). Höfundur getur þess hvergi að þessi
frásögn Landnámabókar er eina ritaða heimildin sem mögulega gæti bent til
klausturhalds í Bæ. Ekki er ólíklegt að Landnámabók geymi hér minningu
um starf farandbiskupa sem komið hafi sér upp einhvers konar miðstöð
klerklærðra sem sinntu trúboði og/eða kirkjuþjónustu fyrir nærliggjandi
héruð. Höfundur segir: ‘Æði margt er á huldu um starfsemi Bæjarklausturs,
nema það að áðurnefndur Rúðólfur hafi komið því á fót eftir fund sem
hann átti með Liavizos, erkibiskupi Íslendinga í Brimum’ (bls. 76). Hér er
látið að því liggja að einhver tengsl séu á milli þessa fundar og stofnunar