Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 207
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS206
úr svo litlu er að moða. Þess í stað segir höfundur einfaldlega að ‘[t]alið er
hafið yfir allan vafa að Sveinn þessi hafi verið prior yfir Keldnaklaustri’
(bls. 303).
Samkvæmt inngangskaf la er tilvist klausturs að Keldum undirstaða
einnar mikilvægustu uppgötvunar höfundar (bls. 39). Hér er átt við þá
kenningu að hin svokallaða Valþjófsstaðarhurð hafi prýtt klaustrið og hún
hafi síðan verið færð í Fljótsdal sem erfðagóss Randalínar, dóttur Filippusar
Sæmundarsonar, en hún bjó á Valþjófsstað frá 1249 til æviloka. Útskurður
hurðarinnar er, að sögn höfundar, táknrænn á þann hátt að úr henni má
‘lesa baráttusögu Jóns sjálfs’. Hún minni á hvernig ‘Jón bjargaði þjóðinni
úr klóm dreka – páfastóls og alþjóðlegrar kirkju – og fylgdi hún honum
allt til dauðadags’ (bls. 308). Sæmundur á að hafa látið skera út hurðina til
heiðurs föður sínum. Jón Loftsson er táknaður sem konungurinn sem fellir
drekann, þ.e. páfann, og er þetta undirstrikað með rúnaristunni sem er
lesin ‘Sjá inn ríka konung hér grafinn er vá dreka þenna.’
Hversu líkleg er þessi kenning? Að því er ég fæ best séð er ekkert sem
styður hana og reyndar margt sem mælir á móti henni. Í fyrsta lagi eru
ekki teknar til greina aðrar skýringar annarra fræðimanna, t.d. Richard
L. Harris, á myndmáli hurðarinnar. Vísað er í að myndmálið endurspegli
minni sem eigi rætur að rekja til þáttar úr verki Wolfdietrich (sem er jafnan
tímasett til um 1230) eða hafi a.m.k. samsvörun við hann. Látum það liggja
milli hluta. Annað lýtur að þeirri grundvallarhugmynd að drekinn tákni
páfann. Ef við lesum myndina á táknrænan hátt þá verður að minnast á að
í miðaldaritum merkja drekar alla jafna djöfulinn sjálfan. Víst er að lærðir
Íslendingar um 1200 hafa vel þekkt slíka samsömun. Það gerði Marteinn
Lúter reyndar einnig og notar hann þessa líkingu óspart í deilum sínum
við páfadóm. Hins vegar væri einsdæmi ef þessari líkingu væri beitt af
íslenskum höfðingja á þrettándu öld. Reyndar þekki ég ekki dæmi þess að
páfa hafi verið líkt við djöful eða dreka á þessu tímabili, ekki einu sinni
þegar deilur keisara og páfadóms stóðu sem hæst.
Ef sú kenning að Sæmundur Jónsson hafi ráðið um smíði og myndefni
Valþjófsstaðarhurðarinnar á að vera sennileg þá er mikilvægt að rökin fyrir
henni eigi sæmilegan samhljóm í stjórnmálalegu og hugmyndafræðilegu
samhengi samtímans. Leitin að klaustrunum undirstrikar mikilvægi Þorláks
Þórhallssonar Skálholtsbiskups sem helsta útsendara og málsvara páfadóms í
meintri baráttu hans við íslensku ættarveldin. Samkvæmt þessari kenningu
markaði dauði Þorláks árið 1193 straumhvörf því þar eftir ná ættarveldin
vopnum sínum og hafa tímabundið betur í hinni meintu baráttu um