Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 209
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS208
Allt á þetta að hafa breyst til betri vegar á þrettándu öld þegar páfinn náði
yfirráðum yfir Viðeyjarklaustri með skipan norskra biskupa á Íslandi ‘og
breytti því í stofnun sem rekin var samkvæmt ströngustu reglum páfagarðs’
(bls. 329). Ég veit ekki hvaða heimildir eða rök styðja þessa niðurstöðu.
Það ætti að vera ljóst að meginkenning höfundar um ‘ættarveldisklaustur’
og ‘alþjóðleg klaustur’ byggir í grunninn á gamalli og, einhver myndi
segja, úr sér genginni söguskoðun sem í grunninn byggist á grunni
þjóðernislegrar túlkunar á skarpri andstöðu milli innlendra veraldlegra af la
og framandi alþjóðlegrar kaþólskrar kirkju. Munurinn er að höfundur lítur
á meintan sigur kirkjunnar sem ‘gott mál’ en ekki slæmt eins og t.d. Magnús
Jónsson gerði (a.m.k. að einhverju leyti). Þetta ber að hafa í huga þegar
höfundur segir samtímafræðimenn aðhyllast gamaldags hugmyndir um
íslensku klaustrin. Helstu brotalamir bókarinnar hvað varðar sagnfræðileg
vinnubrögð og skilning endurspeglast vel í tilvísun til Jóns Loftssonar í
deilum hans við Þorlák helga. Hann ‘á að hafa sagt’ að ‘hvorki páfi né hans
kardináli myndi vita betur né vilja en hinir fornu Íslendingar sem unnu
þjóðfrelsi sínu og höfðu bæði vilja og góða greind á að gæta þess’ (bls. 305).
Þetta eru ekki orð Jóns Loftssonar. Hugtökin ‘þjóðfrelsi’ og ‘hinir fornu
Íslendingar’ ættu ein sér að vekja grun um að hér sé pottur brotinn. Vísað
er til Íslenzks fornbréfasafns en þar setur Jón Sigurðsson sig í spor nafna síns
og ímyndar sér hvað hann hefði sagt andspænis útsendara erlends valds.
‘Heyra má ek erkibyskups boðskap, en ráðinn em ek í at halda hann at
øngu, ok eigi hygg ek at hann vili betr né viti en mínir forellrar’ (Þorláks
saga B, 167). Á þessum tveimur tilsvörum er nokkur munur.
Guðrún Sveinbjarnardóttir: Fornleifafræðilegi þátturinn
Þetta er mikil bók að vöxtum og verkefnið sem hún fjallar um er mjög
metnaðarfullt. Í hana er miklu efni safnað saman um klausturhald á Íslandi
á því tæpa 500 ára tímabili sem það varaði. Steinunn hefur fengið til liðs
við sig fjölda aðstoðarmanna sem hjálpuðu henni að safna miklu magni af
upplýsingum, ekki síst úr ritheimildum. Hér á undan hefur verið fjallað
um ritheimildir og rýni á þeim en nú verður sjónum beint að nokkrum
atriðum sem varða fornleifarannsóknirnar sem gerðar voru.
Þó að markmið klausturverkefnisins hafi verið fjölmörg, var „markmiðið
þó framar öðru að leita nýrra heimilda um þau í jörðu, staðsetja rústir
þeirra“ (bls. 31). Þetta átti að gera með því að beita jarðsjármælingum af
ýmsum gerðum, eða viðnáms-, segul- og radarmæli, og grafa könnunar-
skurði á líklegum stöðum til þess að freista þess að finna efni sem mætti