Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 210
209RITDÓMUR: LEITIN AÐ KLAUSTRUNUM
aldursgreina – annars vegar eldfjallaösku, hins vegar lífræn efni sem nýta
mætti til kolefnis aldursgreiningar til þess að gjóskustaðfesta að rústir sem
tilheyrðu klaustrunum væru fundnar, en starfstímabil þeirra allra eru þekkt
af ritheimildum. Aðeins eitt klaustur hefur verið grafið upp í heild sinni
á Íslandi (Skriðuklaustur). Það var því tilhlökkunarefni að sjá hvort beita
mætti þessum aðferðum til að varpa frekara ljósi á það hvort skipulag húsa
á öðrum klausturstöðum hafi verið svipað og á Skriðuklaustri, eins og
höfundur vill meina. Á þetta reynir hins vegar lítið í bókinni. Það má
vera að ástæðan sé sú að ekki hafi tekist að fá heildarmyndir með þessari
tækni á f lestum staðanna. Sem dæmi má nefna mynd 49 (bls. 157). Þar
er birt tilgáta höfundar sem sýnir Munkaþverárklaustur. Hún er þó ekki
byggð á jarðsjármælingum á staðnum heldur á lýsingum í úttektum sem
eru heimfærðar upp á niðurstöður uppgraftarins á Skriðuklaustri. Hörður
Ágústsson studdist einnig við ritheimildir um þessi hús en komst að annarri
niðurstöðu (sjá Saga Íslands IV, bls. 293-5). Við erum því engu nær um
sannleikann í því máli. Aðeins eru birtar niðurstöður jarðsjármælinga frá
tveimur stöðum. Annars vegar frá Þykkvabæjarklaustri (bls. 211) þar sem
útlínum byggingaleifa gæti svipað til þeirra sem fundust á Skriðuklaustri.
Í prufuskurði sem gerður var í þessar minjar komu í ljós torfveggir með
gjóskulögum, en greining á aldri þeirra gat bent til þess að rústirnar
tilheyrðu klausturtímanum. Þessi lög eru sýnd á mynd 71 (bls. 216), en því
miður án nokkurra skýringa. Betur tekst til með snið sem sýnt er á mynd
50 (bls. 159) þar sem ákveðin gjóskulög eru skilgreind. Hinn staðurinn
þar sem niðurstöður jarðsjármælinga eru birtar er Möðruvallaklaustur (bls.
391), en þar er myndin bæði í mjög smáum skala, óskýr og án nokkurra
skýringa, og því algerlega gagnslaus.
Tekið er fram snemma í bókinni (á bls. 36) að hún gegni ekki hlutverki
uppgraftarskýrslna og vísað í slóð þar sem finna megi slíkar skýrslur. Við
lestur bókarinnar er hins vegar tafsamt að þurfa sífellt að leita á þessari
slóð að mismunandi upplýsingum um aldur og umfang minjanna sem voru
kannaðar, upplýsingar sem þeir sem hafa áhuga á fornleifafræði vilja hafa
greiðan aðgang að, sérstaklega þar sem fyrir kom að slóðir sem gefnar eru
síðar reyndust ekki vera réttar.
Annað sem torveldar lesturinn er að koma heim og saman loftmyndunum
sem birtar eru af hverjum ætluðum klausturstað án þess að sagt sé á þeim
hver áttahorfin eru, og umfjöllun um ætlaðar klausturminjar í texta þar sem
stuðst er við áttatilvísanir. Skýrara hefði verið að setja áttir á loftmyndirnar
eða að hafa staðsetningarkort þar sem áttir eru þekktar.