Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2019, Page 211
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS210
Myndaval er frekar einkennilegt. Í stað ýmissa mynda sem eru ekki
upplýsandi (t.d. myndir 36, 70, 135 og ansi margar af fólki með jarðsjá)
hefði verið til bóta að hafa myndir sem sýndu minjarnar sem verið var
að leita að, svo sem niðurstöður jarðsjármælinganna og skýringar á þeim,
sniðteikningar og uppdrætti og túlkun á þeim minjum sem grafnar voru
upp. Á Þingeyrum er vitnað í jarðsjármælingar sem ýmsir aðrir aðilar
gerðu á ætlaðri kirkjurúst (bls. 104 og 106), m.a. í grein Coolen og Mehler
2015 þar sem eru góðar myndir með skýringum á þessum mælingum.
Þær hefðu mátt fylgja með hér. Það er reyndar spurning af hverju þurfti
að jarðsjármæla sömu svæði aftur fyrir þessa rannsókn. Skýring er ekki
gefin á því. Slóðin með heimildinni sem vitnað er til fyrir þessar seinni
mælingar (Graham 2014) reyndist ekki vísa á rétta skýrslu. Niðurstöður
rannsóknanna á Þingeyrum eru spennandi. Það hefði því verið mikill akkur
í myndefni af niðurstöðum jarðsjármælinganna og t.d. sniðteikningu sem
sýnir gjóskulögin (landnámslag, Katla 1000, Hekla 1104) sem talið er að sé
að finna í torfvegg ætlaðrar klausturkirkju.
Á myndum 38 og 138 (bls. 123 og 422) eru teikningar sem Daniel
Bruun gerði, annars vegar á Þingeyrum og hins vegar á Skriðuklaustri í
kringum aldamótin 1900. Bruun var danskur höfuðsmaður sem ferðaðist
um Ísland í fjöldamörg sumur í kringum aldamótin 1900. Hann hafði
sérstakan áhuga á húsagerð og mældi m.a. upp rústir á fjölda minjastaða.
Uppdrættirnir hafa oft reynst vera nákvæmir og komið að góðum notum
við síðari rannsóknir á þessum stöðum. Það hefði því verið áhugavert að
sjá hvað Bruun sá og skráði um minjarnar á Þingeyrum og Skriðuklaustri.
Myndirnar í bókinni eru hins vegar í svo smáum skala og svo óskýrar að
þess gefst ekki kostur. Sama má segja um teikningu Runólfs M. Ólsen af
húsaskipan á Þingeyrum um miðja 19. öld sem er á mynd 35 (bls. 110). Hún
hefur sjálfsagt komið rannsakendum að góðum notum, en fyrir lesendur
bókarinnar er hún gagnslítil.
Þar sem jarðsjármælingar voru aðal aðferðin við að staðsetja rústir
klaustranna í jörðu kom á óvart að ekki var fjallað sérstaklega um það
hvernig þessi tækni reyndist. Mismunandi tæki voru notuð. Reyndist ein
aðferð betur en önnur við þær aðstæður sem voru fyrir hendi? Einnig hefði
mátt bera niðurstöður mælinganna saman við fornleifarnar sem komu í ljós.
Rannsakendur telja líklegt að frost hafi haft áhrif á mælingar með viðnáms-
og segulmælum (Hítardalur, bls. 33, Þingeyrar bls. 95). Þetta hefði þurft
að ræða frekar og sannreyna með því t.d. að fara aftur á öðrum árstíma og
mæla. Hvorutveggja hefði verið gagnlegt fyrir framtíðarrannsóknir með