Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Page 12
Stefán Ágústsson
„Allt sem hefur verið til,
heldur áfram að vera til“
Náttúrutrú og dulspeki í verki
Þórbergs Þórðarsonar, Steinarnir tala
Á fyrstu áratugum síðustu aldar var heimsmynd Vesturlandabúa í gagn-
gerri endurskoðun og ýmiss konar dulspeki var talin geta varpað ljósi á hið
óþekkta í glímunni við lífsgátuna.1 Hugmyndafræði spíritista og guðspek-
inga var bæði mennta- og listamönnum víða um lönd hugleikin. Þar var
skáldið Þórbergur Þórðarson engin undantekning en hann kom til Reykja-
víkur 18 ára gamall árið 1906, fullur af eldmóði og þorsta eftir þekkingu.2
Hann vildi ekkert fremur en vita hvernig tilvera hans væri samansett. Þessa
þrá má glöggt sjá á upphafsköflum Ofvitans þar sem hinn ungi Þórbergur,
1 Dulspeki (e. esotericism) er nútíma fræðiheiti, yfirhugtak yfir dulræn þekkingarkerfi
sem urðu til við lok átjándu aldar. Það lýsir því ekki sjálfstæðri hefð heldur mörgum
ólíkum hreyfingum eða kerfum sem þó eiga sitthvað sameiginlegt. Þar má nefna
gnóstík, náttúruspeki og stjörnufræði. Í þessari grein verður lögð megináhersla á
guðspeki sem var stór þáttur í heimssýn Þórbergs Þórðarsonar. Spíritismi og jóga-
heimspeki koma einnig við sögu þó í minna mæli sé en hugmyndir þessara dulspeki-
hreyfinga skarast og styðja hver aðra og skapa heildstæða mynd í þekkingarkerfi
Þórbergs. Sjá: Wouter J. Hanegraaff, Western Esoterism, London: Bloomsbury, 2014,
bls. 3–5.
2 Grein þessi er byggð á lokaverkefni mínu til BA-prófs í íslensku við Háskóla Íslands
frá árinu 2018, „Hvílík eilífð er líf steinsins“. Dulspeki í verki Þórbergs Þórðarsonar,
Steinarnir tala og samnefndum fyrirlestri fluttum á Þórbergssetri þann 27. október
sama ár. Fyrirlesturinn var tekinn upp á myndband og er varðveittur á Setrinu. Ég
vil nota tækifærið og þakka leiðbeinanda mínum Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur
fyrir ómetanlega aðstoð við lokaverkefnið, fyrirlesturinn og þessa grein. Benedikt
Hjartarson fær einnig þakkir fyrir aðstoð og þarfar ábendingar við vinnslu greinar-
innar sem og tveir ónafngreindir ritrýnar fyrir einkar gagnlegar athugasemdir.
Ritið
2. tbl. 20. árg. 2020 (11-44)
Ritrýnd grein
© 2020 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar
og höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.20.2.1
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).