Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 56
KRISHNaMURTI OG ÞóRBERGUR
55
Það er nokkuð ljóst að með blekkingu hins ytra forms á Þórbergur við maya.
Á svipaðan hátt talar Krishnamurti og þó að hann notist ekki oft við orð-
ið maya, fremur en Þórbergur, er samt augljóst að hugmyndin um það er
honum töm eins og guðspekingum yfirleitt en svo er að sjá sem hann gangi
að henni sem vísri.45 Leiðin til að sjá í gegnum skynvilluna er sú sama hjá
honum og hjá Þórbergi, það er að við eigum að leita inn á við í stað þess að
einbeita okkur að veraldlegum og í raun einskis verðum hlutum. Það sést til
dæmis á eftirfarandi tilvitnun í fyrirlestur hans í Ársriti Stjörnufélagsins frá
1929. Þar fjallar Krishnamurti um hina varanlegu hamingju sem er að finna
bak við hulu hins fallvalta heims:
Í mínum augum hefir lífið aðeins einn tilgang: að menn öðlist
hamingjuríkið, sem fólgið er í brjósti sjerhvers þeirra og unt er
að öðlast, með því eina móti: að hafna, afneita eða sigrast á hinu
jarðneska.
Hvert sem þjer farið, munuð þjer komast að raun um, að menn
eru að leita þessarar hamingju, sem er varanleg, óumbreytanleg og
eilíf. En þeir láta flækjast eins og fiskar í neti, hverfleikans hlutir
veiða þá, örðugleikar og lokkandi raddir, andúð, hatur og afbrýði
og allir þessir smámunir, sem fjötra menn.46
Hér kann sú spurning að vakna hvernig þetta tengist Íslenzkum aðli og hvers
vegna Þórbergur segir í fyrrnefndu viðtali við Sigurð Einarsson að bókin
hefði allt eins getað heitið Bókin um blekkinguna. Það er nokkuð sem er
vert að kanna nánar og verður gert í næstu köflum.
Íslenzkur aðall eða Bókin um blekkinguna
Í Íslenzkum aðli segir Þórbergur frá einu sumri árið 1912, þegar hann er 24
ára gamall, nýbúinn að fá birt ljóð á fyrstu síðu Ísafoldar og er yfir sig ást-
fanginn af stúlku sem hann kallar Elskuna sína. fjarlægðin milli sviðsetta
sögumannsins Þórbergs og hins unga Þórbergs er víða augljós. Hinn ungi
Þórbergur sögunnar er leitandi og markmið hans er skilningur og varanleg
sæla, en hér velkist hann „sem reiðalaust rekald fyrir vindum [sinna] eigin
45 athygli vekur að í grein Halldórs Laxness um Krishnamurti hefur hann ekki fyrir
því að þýða eða skýra orðið maya fyrir lesendum sínum, þó að hann geri það við
annað orð af indverskum uppruna (nánar tiltekið orðið „Guru“) á sömu blaðsíðu.
Halldór Kiljan Laxness, „Krishnamurti í Ojai dalnum 1929“, bls. 38.
46 Krishnamurti, „Ræða flutt í París“, Ársrit Stjörnufélagsins 1/1929, bls. 14–19, hér bls.
14.