Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 184
HaNS æR OG KýR
183
Það er hins vegar aðeins talað tvisvar um náttúru í Handbók um hugarfar
kúa og þá aðeins í gildishlöðnum tilgangi. Bókin byrjar í Hvalfirði og er
lesandi minntur á efnahagslegar afleiðingar framþróunar á frjálsum markaði.
Hvalfjörðurinn og aflóga Botnsskálinn sem áður iðuðu af lífi og lyktinni af
soðnum pylsum eru aðeins heimili drauga og búsældarlegra flugna nú til
dags, og loks er lesandi minntur á „gerviskóginn“ í Heiðmörk – þar sem ekk-
ert grær nema í boði markaðarins. andstæðan sem höfuðborgin getur af sér
er ekki lengur sveit/borg, heldur er andstæðan heterótópía/hversdagurinn.
„Sveitin“ hefur verið lögð niður og í stað hennar framleidd önnur útgáfa
sem á að fela þá staðreynd að það sem við höldum að sé náttúrlegt er í raun
tilbúningur, menning í versta skilningi. Kýr koma úr tilraunaglösum, tré
vaxa í boði styrktaraðila og gamalgróin gildi falla í verði á frjálsum markaði.
Er kannski eitthvað athugavert við það?
Bjarni bóndi segir:
Það er eitt að trúa á og tileinka sér framfarir, Helga mín, annað er
að byrja að fyrirlíta hið gamla. Gömlu torfbæirnir eru allir horfnir
núna því þeir minntu fólk á kulda og sagga og það sem menn svo
miskunnarlaust kalla molbúahátt. En hvaða menningu eiga þeir
sem tala svo? Þegar menn snúa baki við sögu sinni, þá fyrst verða
þeir litlir.81
Með nokkurri einföldun mætti segja að Bergsveinn skrifi til þess að minna á
að ekki beri að fyrirlíta hið gamla, því þar leynist gullið í grjótinu – í kuld-
anum og sagganum. Það kemur fram í Handbók um hugarfar kúa að menn-
ing okkar sé „gömul og púkó“ en „ef við fyrirlítum hana fyrirlítum við sögu
okkar og okkur sjálf“.82 Því hvað erum við annað en afurð þeirrar menningar
sem við köllum okkar eigin? Því mætti halda fram að þau efnisatriði sem hér
hafa verið talin: tungumálið, brostnar fjölskyldur, þunglyndi og einangrun
kristallist þegar á heildina er litið í einum kontrapunkti. Sú þungamiðja er
viss gagnrýnn tónn um íslensk þjóðmál. Þessi tónn er sleginn strax í fyrstu
bók Bergsveins og það má enn heyra hann hringja í skrifum hans sjö árum
síðar.83
81 Sama rit, bls. 66.
82 Bergsveinn Birgisson, Handbók um hugarfar kúa, bls. 183.
83 Ég vil færa nafnlausum ritrýnum Ritsins mínar allra bestu þakkir fyrir vandlegan yfir-
lestur og nytsamlegar ábendingar. „Peer review is a topic that is impossible to make
sexy, but it’s crucial“. Naomi Oreskes og Erik M. Conway, Merchants of Doubt. How a
Handful of Scientists Obscured the Truth on Issues from Tobacco Smoke to Global Warming,
New York, Berlin og London: Bloomsbury Press, 2020, bls. 292.