Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 179
KJaRTaN MÁR ÓMaRSSON
178
meðan hann verst innrás nútímans á dyrahelluna.60 Í Svar við bréfi Helgu er
ekki aðeins saga Bjarna rakin – sama gildir um æviþætti Gusa í Landslag er
aldrei asnalegt – heldur saga þjóðarinnar, því þetta tvennt tvinnast saman
órjúfanlegum böndum. Á einum stað segir Bjarni: Við vitum að framfarir
eru á mörgum sviðum og ætli nokkur kynslóð önnur en okkar eigi eftir að
upplifa þvílíkar breytingar á sínum högum á einni ævi? Við ólumst upp í
menningu sem hafði lítið breyst síðan á landnámsöld og fengum líka að
kynnast hinum vafasama nútíma, tækjum hans og tólum og gerilsneydda
mjólkurglundri.“61 Með Bjarna förum við í ferðalag sem stappar nærri ár-
hundraði og mælir tilfærslu íbúa þessarar eyju úr bæ í borg, úr fortíð í nútíð.
Bréf hans og saga sýna gömul byggðarlög og hugsjónir slitna sundur milli
framtanna tímans, og greina innrás nútímans í íslenskt samfélag.62 Eða, eins
og hann segir sjálfur: „Ég fékk að smakka á því – lífinu. Það er nú svoleiðis,
Helga mín.“63
Það er forvitnilegt, þegar gaumgæft er hversu nátengt líf Gusa og Bjarna
er sögulegri þróun fósturjarðarinnar og 20. aldarinnar almennt, hvað Gestur
er að sama skapi sögulaus, en það kann að vera einkenni þeirra póstmódern-
ísku og síðkapítalísku tíma sem hann er uppi á. Sagan verður að ímyndun í
söguleysi póstmódernismans en ekki herrafrásögn og „fortíðinni sem „tákn-
miði“ [er] smám saman vikið til hliðar og síðan eytt og við sitjum eftir með
eintóman texta“.64 Bandaríski bókmenntafræðingurinn Frederic Jameson
60 Það er næsta erfitt fyrir lesanda að heillast ekki af persónu bóndans á Kolkustöðum,
kynngimögnuðu orðfæri hans og háttum. Gylltum ljóma slær á horfinn heim og
minnir lesendur á liðna tíð, þá „einföldu“ daga áður en „við“ gerðumst undirseld
boðorðum neysluhyggjunnar. Það sem gerir Bjarna meðal annars svo heillandi er
vísast hversu mannlegur hann er. Einhver helgidómur hvílir yfir lífsviðhorfi hans og
viðmóti svo lesandi kemst ekki hjá því að gera samanburð við ævi sína og velta fyrir
sér hvort hinu manneskjulega hafi verið fórnað á altari munaðarins; hvort menn eins
og Bjarni, eða þá Gísli gamli á Karlseyri heyri sögunni til? Þannig sver bókin sig í
ætt við aðrar bækur sem segja má að gagnrýni samtímann með því að „sýna“ liðna
tíð við góð birtuskilyrði, til dæmis „Kartöflubók“ Sölva Bjarnar Sigurðarsonar, eða
17. aldar bækur Sjóns, svo eitthvað sé nefnt.
61 Bergsveinn Birgisson, Svar við bréfi Helgu, bls. 66.
62 „Sambandið var upprunalega samtök bænda sem áttu að standa vörð um hag þeirra
[…] en Sambandið breyttist í stórveldi og afætufélag í Reykjavík sem rak fleyg í
félagshugsjónina“ (65); Framsóknarflokkurinn sem menn kusu í blindri trú því:
„Maður trúir nú á Guð þótt maður sjái hann ekki“ (31); Frystikistan kemur (18);
Commander–sígarettur (19); Gauta–vélin (28); fyrsta dráttarvélin í héraðinu (33) og
Kampurinn (96).
63 Bergsveinn Birgisson, Svar við bréfi Helgu, bls. 8.
64 Fredric Jameson, „Póstmódernismi: eða menningarleg rökvísi síðkapítalismans“,