Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 76
KRISHNaMURTI OG ÞóRBERGUR
75
sé „undirrót stéttabaráttunnar“,126 hvað þá að hún fjalli fyrst og fremst um
hvernig blekkingin leikur mennina og hefði allt eins getað heitið Bókin um
blekkinguna, eins og Þórbergur segir í viðtalinu við Sigurð aðeins nokkrum
mánuðum áður.
Hér hefur verið rakið hvernig þær lífsskoðanir sem Þórbergur tileinkaði
sér í gegnum kynni sín af guðspeki, jógafræðum og spíritisma hafa komið
fram í verkum hans. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að sýna fram á þetta
með dæmum úr Íslenzkum aðli, ekki síst hvað varðar hugmyndir um blekk-
ingu persónuleikans eða maya og lausnina undan henni og það guðlega
eðli sem finna má innra með öllum mönnum þegar lausninni hefur verið
náð. Mætti benda á ýmislegt fleira áhugavert í tengslum við bókina í þessu
samhengi en það á einnig við um önnur verk Þórbergs. Það bíður þó betri
tíma.127
Ú T D R Á T T U R
Krishnamurti og Þórbergur
– um blekkinguna og lausnina í Íslenzkum aðli –
Í viðtölum, bréfaskrifum, fyrirlestrum og greinum Þórbergs Þórðarsonar gerir hann
iðulega dulspeki að umræðuefni. Ýmsir fræðimenn hafa einnig fjallað um mikilvægi
dulspekinnar í heimsmynd Þórbergs og nokkrir hafa bent á að þar gæti leynst ákveð-
inn lykill til að skilja höfundarverk hans betur. Hins vegar hefur enn sem komið
er ekki mikið verið gert til að lesa bækur hans í þessu samhengi. Í þessari grein er
sýnt fram á samsvaranir í Íslenzkum aðli, fyrsta sjálfsævisögulega ritverki Þórbergs í
fullri lengd, við kenningar Krishnamurtis, sem Þórbergur kynnti sér náið einmitt á
þessum árum, varð fyrir miklum áhrifum af og meira að segja hitti persónulega og
skiptist á skoðunum við. Nokkrir þættir eru sérstaklega dregnir fram, dulspekilegar
hugmyndir um blekkingu persónuleikans eða maya og lausnina undan henni, hlut-
verk elskunnar í því ferli, og það kompaní við allífið sem þeir komast í sem ná að
öðlast lausnina varanlega.
Lykilorð: Þórbergur Þórðarson, Íslenzkur aðall, hugmyndafræði, blekkingin, maya,
lausnin, elskan, Krishnamurti, nútímadulspeki
126 Sigurður Einarsson, „Hin nýja bók Þórbergs Þórðarsonar“, bls. 15.
127 Ég vil þakka Benedikt Hjartarsyni, Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur, Þorleifi Hauks-
syni, tveimur nafnlausum ritrýnum og ritstjórum Ritsins fyrir vandaðan yfirlestur og
margar góðar ábendingar.