Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 170
HaNS æR OG KýR
169
gögn, eiginkonuna og óttann við stríð“.26 að því gefnu er sýnt að orðfærið er
hvorki upp á punt né til þess að flíka hversu djúpt sé í botninn í brunni Berg-
sveins. Orðin hafa ákveðinn starfa, sem er að láta lesanda hika, og skynja.
Loks verða persónur eins konar tungutakssagnfræðingar. Sérstæð mál-
notkun Bergsveins stuðlar hugmyndafræðilega að varðveislu tungumálsins.
Hann hefur sagt sér þyki tungumál vera „flórur hugsunarinnar og þegar
þjóð missir tengslin við tungumál sitt missir hún líka tengslin við allt sem
hefur verið hugsað á tungumáli. Það hlýtur að vera snauðari menning en
áður“.27 Með því að festa tungumálið á bók hlúir Bergsveinn að þjóðlegum
verðmætum fyrir komandi kynslóðir, verðmætum sem kynnu öðrum þræði
að enda í glatkistunni.28
Mother, you had me …
Splundraðar fjölskyldur, þar sem samband karlpersóna við konur og sér
í lagi mæður er í forgrunni, einkenna einnig bækur Bergsveins. Sé litið á
fyrstu þrjár skáldsögur hans í tímaröð sést hvernig hann leikur sér að fram-
setningu móðurímyndarinnar. Móðirin í Landslag er aldrei asnalegt er frá-
hverf, móðirin í Handbók um hugarfar kúa er fölsk og loks er móðirin í Svari
við bréfi Helgu alls engin móðir þar sem hún er óbyrja. Þar á ofan er móður-
hlutverkið skoðað úr ólíkum áttum. Lesandi lítur móðurina með augum
sonarins í Landslag er aldrei asnalegt. Halldór Benjamínsson er barnlaus og
í þokkabót aðeins hársbreidd frá því að vera munaðarlaus. Hann er einka-
barn sem missir föður sinn aðeins tólf ára gamall, föður sem hann þekkti
ekki því hann var „alltaf úti á sjó“.29 Síðar, þegar Halldór er lagður í einelti
í skólanum fyrir sunnan er móðir hans honum fráhverf. Halldór lætur að
því liggja að viðvera sé engan veginn það sama og tilvera. Móðir hans var
kannski nærri honum en hún var langt í frá náin honum. Hann segir: „þarna
26 Sama rit, bls. 29.
27 Hávar Sigurjónsson, „Skáld kemur til sögunnar“, Morgunblaðið, 4. nóvember 2003,
bls. B5.
28 Hér má sjá vissar taugar liggja milli Bergsveins og Þórbergs Þórðarsonar sem var
ötull orðasafnari og hafði eldlegan áhuga á þjóðlegum fræðum. Þar að auki eru um-
fjöllunarefni þeirra, tilvistarleg og pólitísk, til dæmis sammælanleg að vissu marki.
29 Bergsveinn Birgisson, Landslag er aldrei asnalegt, Reykjavík: Bjartur, 2003, bls. 130.
Það er aldrei talað um að Halldór eigi systkini. Á einum stað stendur „smám saman
fer fólkið heima að leysast upp“ en það hlýtur að vera túlkunaratriði hvers og eins
hvaða „fólk“ þetta er. Ég hef kosið að líta sem svo á málið, þar sem nánasta fjölskylda
er ekki ítrekuð frekar, og þar sem aðeins er talað um jólagjöf frá móður hans (ekki að
allir þurfi endilega að gefa jólagjafir), að hann sé einkabarn.