Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 194
UM TILURð HnATTA OG HAnDSAUMAðRA ÚTGáFnA
193
Merkingin er í samræmi við fagurfræði bókverksins, eða með öðrum orðum:
fagurfræði bókverksins er úthugsað, speglar inntakið og magnar það upp
eða sagt á annan hátt, fagurfræðin er líka inntak verksins og mörkin á milli
jaðartextans (e. paratext) og texta verksins eru afmáð. Gérard Genette skil-
greinir jaðartextann sem þröskuld sem þarf að stíga yfir áður en gengið er
inn í verk og gegnir lykilhlutverki fyrir allar viðtökur þess. 14 Það sem mætir
lesanda fyrst er margt annað en sjálfur texti verks og það mótar hvernig
hann les textann. Þessi markvissa notkun jaðartexta virðist vera ein helsta
aðferðin sem örforlög nýta til þess að marka sér sérstöðu á menningarvett-
vangi.15 Þetta á við um jaðartexta í útvíkkuðum skilningi,16 ekki einungis til
dæmis káputexta heldur allar hliðar fagurfræðinnar, líka hið stefnumarkandi
og hið gjörningsbundna eða performatífa. Með öðrum orðum er jaðartexti
ekki bara texti sem fylgir með verki eins og titill og höfundarnafn, heldur
líka hönnun, verð og leturgerð þess. Stefnuyfirlýsingar og stefnumarkandi
skrif örforlaga almennt, kynningarefni á netinu og viðburðir og gjörningar
sem þau skipuleggja eru einnig jaðartextar í þessum skilningi.
Ef við skoðum annan jaðartexta, það er að segja titla verka sem gefin
hafa verið út af Laboratoriet for Æstetik og Økologi, kemur stefnumörkun
augljóslega fram. Titlarnir innihalda oftar en ekki framandi orð og jafnvel
nýyrði. Tónninn er fræðilegur en um leið ljóðrænn. Hér má sjá lista yfir út-
gáfur forlagsins:
• Biopoesi (Lífljóðlist) – Eduardo Kac
• Misantropocæn (Mannhatursöld) – Joshua Clover og Juliana
Spahr
• Astroøkologi (Stjörnuvistfræði) – Johannes Heldén
• Andethedens poetik (Ljóðlist annarleikans) – Joan Retallack
• Kønnets afskaffelse og økoton krig (Afnám kynsins og vistkerfisstríð)
– Juliana Spahr og Joshua Clover
14 Sjá lykilrit um jaðartexta sem kom út í frumriti á frönsku árið 1987: Gérard Ge-
nette, Paratexts. Thresholds of Interpretation, þýðandi Jane E. Lewin, Cambridge:
Cambridge University Press, 1997, bls. 2.
15 Hugtakið „menningarvettvangur“ er hér sótt í kynningar Pierres Bourdieu, sjá með-
al annars The Field of Cultural Production. Esseys on Art and Literature, ritstjóri Randal
Johnson, Columbia University Press, 1993, bls. 37–38; The Rules of Art. Genesis and
Structure of the Literary Field, þýðandi Susan Emanuel, Stanford: Polity Press, 1996,
bls. 124.
16 Jerome McGann, The Textual Condition, Princeton: Princeton University Press,
1991, bls. 13.