Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Page 110
Jakob von Uexküll
Amoeba terricola
Inngangur að þýðingu
Líffræði […] reynir að gera bernskum áhorfanda ljóst að hann sér
alltof lítið og að raunheimurinn er miklu auðugri en hann grunar.
Um hverja lífveru lykur hennar eigin birtingarheimur sem líkist í
grundvallaratriðum þeim heimi sem bernski áhorfandinn hrærist í.
En slíkir heimar eru til í svo mörgum afbrigðum að hann gæti eytt
ævinni í að rannsaka þá og aldrei komist yfir það.1
Þannig kemst eistneski líffræðingurinn Jakob Johann von Uexküll (1864–
1944) að orði í einu höfuðrita sinna, frá árinu 1928. Með verkum sínum lagði
hann meðal annars grunn að fræðilegri líffræði og tilraunarannsóknum á at-
ferli dýra og um hann hefur verið sagt að hann hafi viljað skapa nýja líffræði
sem „liði ekki fyrir merkingarblindu“.2 Þekktasta framlag hans til líffræði er
kenningin um að hver tegund lífvera eigi sér sinn skynheim (þ. Umwelt) sem
séu takmörk sett. Á þýsku er orðið Umwelt það almenna heiti sem notað er
um „umhverfi“, en í meðförum Uexkülls öðlast það dýpri og margbrotnari
merkingu. Kenningu sína um skynheim setti hann fyrst fram árið 1909 og
hún varð kjarnaatriði í lífsstarfi hans sem hann nefndi beinlínis skynheims-
rannsóknir (þ. Umweltforschung). Uexküll byggði á heimspeki Kants og vildi
breyta áherslum í líffræði þannig að hún snerist ekki einvörðungu um hinn
hlutlæga heim. Hann greip því til þess nýstárlega ráðs að kanna lífverur frá
1 Jakob von Uexküll, Theoretische Biologie, önnur endurbætt útgáfa með sjö myndum,
Berlin: Verlag von Julius Springer, 1928, bls. 62.
2 Kalevi Kull, „Jakob von Uexküll. An Introduction“, Semiotica 134: 2001, bls. 1–59,
hér bls. 2.
Ritið
2. tbl. 20. árg. 2020 (109-116)
Þýðing
© 2020 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar
og höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.20.2.4
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).