Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Side 84
lEIKIð ORðTólUM
83
lítur svo á að tungumál breytist fyrir tilverknað einstaklinganna sem tala það
og skrifa en ekki af völdum náttúrulegra eða málfræðilegra lögmála.
Það vekur athygli hve Þórbergur er afdráttarlaus um þetta efni, hann
hefur enga fyrirvara á því að einstaklingur geti með málnotkun sinni orðið
til þess að breyta málinu. Hér setur hann málbreytingarnar reyndar í sam-
hengi við ofurvald heimskunnar í heiminum, sem honum verður tíðrætt
um í Bréfi til Láru og fleiri ritum, málinu hnignar fyrir tilverknað „hinna
heimskustu sem málin mæla“. á hinn bóginn hlýtur þessi afstaða líka að fela
í sér trú á því að „hinir vitrari“ geti kallað fram breytingar og rutt nýja slóð
þótt barátta þeirra gegn „hermihneigð þekkingarskortsins“ virðist stundum
heldur torsótt. Þegar Þórbergur skrifar fyrrnefnda grein er Bréf til Láru ný-
lega komið út og leiða má líkur að því að eitt af markmiðum þeirrar bókar
hafi einmitt verið að stuðla að breytingum á íslensku máli, nánar tiltekið á
íslensku ritmáli, íslenskum bókmenntum. Í Bréfinu segir Þórbergur:
Oss vantar [...] menn með skýrt markað einstaklingseðli, menn,
sem hafa siðferðisþrek til að lifa frjálsir og óháðir samábyrgð al-
mennrar heimsku. [...] Oss vantar tilbreytingu í hið sviplausa þjóð-
líf vort og bókmentir.19
Varla þarf að efast um að Þórbergur taldi sig vera slíkan mann, ætlun hans var
að vera byltingarmaður í bókmenntum, endurnýja „sviplausa“ bókmennta-
hefð samtímans. Síðar segir hann um ritverk sín: „Bréf til láru, Íslenzkur
aðall og að nokkru leyti Pistilinn skrifaði … eru eina nýjung sem komið
hefur fram í íslenskum bókmenntum síðastliðin 100 ár.“20
Í ritum sínum verður Þórbergi ekki tíðrætt um erlenda málfræðinga eða
kenningar þeirra. Í bók hans um esperanto, Alþjóðamál og málleysur, tekur
hann þó allmarga málfræðinga til vitnis um ágæti alþjóðamálsins. Þar má
nefna Max Müller prófessor í Oxford, sem ekki var síður þekktur sem sér-
fræðingur í indverskum trúarbrögðum, en útgefnir alþýðufyrirlestrar hans
nutu mikillar hylli í Bretlandi og víðar og mikið til hans vitnað.21 Annar mál-
19 Þórbergur Þórðarson, Bréf til Láru, Reykjavík: Mál og menning, 1950, bls. 121.
20 Þórbergur Þórðarson, Meistarar og lærisveinar, bls. 101.
21 F. Max Müller, Lectures on the Science of Language, london: longman, Green, long-
man og Roberts, 1862–4. Til gamans skal nefnt að Müller er einn þriggja saman-
burðarmálfræðinga sem Saussure telur ástæðu til að veita sérstaka athygli enda
hafi hann gert samanburðarmálfræðina aðgengilega almenningi. Sjá Ferdinand de
Saussure, Course in General Linguistics, ritstjórar Charles Bally og Alberts Sechehay
í samvinnu við Albert Riedlinger, þýðing, inngangsorð og athugasemdir eftir Wade
Baskin, New York, Toronto og london: McGraw-Hill Book Company, 1959, bls. 3.