Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 81
AðAlSTEINN EYÞóRSSON OG BERGljóT SOFFÍA KRISTjáNSDóTTIR
80
hana og setja hana í samhengi við indóevrópska ættartréð á svipaðan hátt og
náttúruvísindamenn söfnuðu sjaldgæfum tegundum og steingervingum.10
En hugmyndin um málfræði sem náttúruvísindi hafði fleiri afleiðingar.
19. aldar málfræðingar sem vildu feta þá leið – og styrkja þannig virðingar-
stöðu fræðigreinarinnar – hlutu að leita fyrirmynda í jarðfræði og líffræði
þar sem vísindamönnum hafði tekist að afmarka þau öfl og þau lögmál sem
réðu þróun jarðarinnar og lífveranna þar. Samanburðarmálfræðin hafði sýnt
fram á hvernig tungumál höfðu breyst og þróast í tímans rás, sum liðu undir
lok en nýjar tungur spruttu af horfnum fornmálum. Eitt af viðfangsefnum
„vísindalegrar“ málfræði var því að bera kennsl á þau öfl og þau lögmál sem
knúðu slíkar breytingar áfram. Og þar hlutu einhvers konar náttúruöfl og
náttúrulögmál að ráða ferðinni fremur en frjáls vilji einstaklinga. En þetta
reyndist þrautin þyngri og ýmis sjónarmið á lofti um hvar ætti að leita svara.
Meðal þess sem þar kom til álita var að tungumál þróuðust eins og lífverur
sem vaxa og dafna uns þær taka að hrörna og deyja loks. Fyrirmynda var
leitað í flokkunarfræði lífvera í anda linné og í þróunarkenningu Darwins.11
Þarna komu líka við sögu hugmyndir um markvissa þróun mannsandans
í anda Hegels og skyldar kenningar um „þjóðaranda“ (þý. Volksgeist) og
„þjóðasálfræði“ (þý. Völkerpsychologie)12 sem stýrði þróun tungumála, svo
ekki sé minnst á margar og margvíslegar uppástungur um uppruna mannlegs
máls og hvort það væri „guðs gjöf“ til mannkynsins eða áunninn hæfileiki
tegundarinnar. Þó voru líka til málfræðingar sem höfnuðu því að leita sífellt
fyrirmynda í náttúrufræðum og lögðu áherslu á tjáskiptahlutverk tungu-
málsins, mótunaráhrif samfélagsins, nýsköpun og meðvituð frávik frá venju
10 Sjá til dæmis Anna Morpurgo Davies, History of Linguistics. Volume IV: Nineteenth-
Century Linguistics, ritstjóri Giulio lepschy, london og New York: longman, 1998,
bls. 24–58.
11 Það var August Schleicher sem gekk einna lengst í að samsama málvísindi náttúruvís-
indum. Hann leit beinlínis svo á að tungumál væru lifandi verur og seld undir sömu
lögmál og aðrar slíkar. Höfuðrit hans er Compendium der vergleichenden Grammatik
der indogermanischen Sprache, Weimar: Böhlau, 1861–2. Í ritinu Die Darwinische The-
orie und der Sprachwissenschaft, Weimar: Böhlau, 1863, heimfærir Schleicher meðal
annars kenningar Darwins á þróun tungumála. Almennt um samhengi náttúru- og
málvísinda á 19. öld, sjá Anna Morpurgo Davies, History of Linguistics. Volume IV, bls.
83–97; Brigitte Nerlich, Change in Language. Whitney, Breal and Wegener, london:
Routledge, 1990, bls. 37–49.
12 Brigitte Nerlich, Semantic Theories in Europe, 1830–1930. From etymology to con-
textuality, Amsterdam: john Benjamins, 1992, bls, 53–66, 73–79; Anna Morpurgo
Davies, History of Linguistics. Volume IV, bls. 201–207.