Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 251
AuðuR AðAlSTEInSDóTTIR
250
Fólkið í næstu húsum er friðsamlegt, ég heyri lítið til þess, nema
stöku hlátra yfir snarkandi grillum. […] Í gaslogunum sviðnar hold
fórnardýranna. Mennirnir virðast alltaf þurfa að drepa eitthvað, ef
þeir drepa ekki hver annan. (Sg. 61)
Þessi siðferðislega meðvitund er mikilvægur þáttur í fagurfræðilegri stúdíu
Gyrðis og þar má bera kennsl á sérstöðu hans í hinni hefðbundnu umræðu
um tengsl lífs og listar. „Allar fréttir af heiminum sem berast hingað benda
til þess að hann sé á síðustu eldsneytisdropunum,“ segir rithöfundurinn (Sg.
78). Hvernig eiga listamenn og aðrir að bregðast við sífelldum umhverfis-
ógnum? Reynslan sýnir að dómsdagsspár og ofsahræðsla hafa takmarkað
gildi:
En þannig hefur það lengi verið. Heimsendakenning trúarbragð-
anna er lífseig, hún lúrir bak við veraldlegt yfirborð. nú á dögum
er það kjarnorka og gróðurhúsaloftslag sem sér um að boða enda-
lokin. (Sg. 78)
Í staðinn þróa listamenn Gyrðis með sér stóíska afstöðu til heimsins. Fræði-
mennirnir kai Whiting, leonidas konstantakos, Angeles Carrasco og luis
Gabriel Carmona halda því einmitt fram að áhersla stóuspekinnar á dyggð-
irnar réttlæti, hugrekki, sjálfstjórn og visku81 sem saman varði leiðina að far-
sæld (gr. eudaimonia) geti verið mikilvægt innlegg í umræðu samtímans um
sjálfbæra þróun og velferð. Þeir telja jafnframt að stóískur skilningur á um-
hverfisvandamálum leiði til viðurkenningar á því að eilífur vöxtur sé ómögu-
legur, hvað sem tæknilegum framförum líður; að eftirspurnin eftir orku og
efni sé ekki sjálfbær og hafi farið yfir þolmörk þessarar plánetu. Sá skilningur
feli í sér að viðurkenna að mannkynið er hluti af náttúrunni og að ríkjandi
skammtímasjónarmið í efnahagsmálum séu ekki í samræmi við hina náttúru-
legu hringrás. krafa stóuspekinnar um efnislega framkvæmd áðurnefndra
dyggða ýti á iðkendur hennar að taka virkan þátt í samfélaginu og leggi þá
siðferðislegu skyldu á herðar fólks að ögra sjónarmiðum nýklassískrar hag-
fræði og áherslu hennar á eignir eða aðra „ytri“ þætti, sem geta ekki bætt
ástand nokkurs manns og geta jafnvel truflað hann í að breyta rétt.82
81 Ég styðst hér og víðar við þá íslenskun á grískum hugtökum sem Svavar Hrafn
Svavarsson notast við í greininni „Stóísk siðfræði og náttúruhyggja“, Hugur 2011,
bls. 57–74, hér bls. 67.
82 kai Whiting, leonidas konstantakos, Angeles Carrasco og luis Gabriel Carmona,
„Sustainable Development, Wellbeing and Material Consumption. A Stoic Per-
spective“, Sustainability 10: 2/2018, bls. 1–20, hér bls. 1, 5, 8 og 9, sótt 9. júní 2020