Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2020, Blaðsíða 152
„MInnIð ER GATASIGTI“
151
hrúgað í sátu en ekki blásið upp í úthugsaða lokka eins og vanalega“ (20).
Þá getur hún „ekki dulið þreytuna, streitan situr föst í andlitsdráttunum“
(55) og „hana verkjar í kroppinn […] [en hana] verkar alltaf þegar hún er
þreytt“ (20).75 Fljótlega eftir að Saga útskrifast af spítalanum lætur Kristín
sig hverfa en vegna minnisvandræðanna veit Saga ekki hvers vegna. Hvarfið
kemur hvorki föður hennar né systkinum á óvart því í ljós kemur að þetta
er ekki í fyrsta skiptið sem Kristín hverfur. Veikindi Sögu hafa vakið upp
minningar hennar um fyrri áföll og um leið ýft upp neikvæðar tilfinningar
og vanlíðan sem þeim tengjast. Áföllin sem hér um ræðir eru annars vegar
fyrri krampaköst Sögu og hins vegar lát Katrínar, systur Sögu, sem lést að-
eins tveggja mánaða gömul. Innan fjölskyldunnar hefur aldrei verið rætt um
dauða Katrínar og orsök hans heldur hefur þögnin markvisst verið notuð
sem vernd, aðferð til að lifa af missinn. Samkvæmt Jóhönnu tókst öllum í
fjölskyldunni „að gleyma til að geta haldið áfram að lifa“ (196) það er öllum
nema Kristínu sem „týndist alltaf á haustin, þegar það tók að dimma“ (196).
Þegar Saga fær flogaköstin í upphafi bókar hefur Kristín ekki „týnst“ í fjölda
ára. Tíminn, umhverfið og lífshættuleg veikindi Sögu eiga þátt í að vekja
upp ótta Kristínar um að missa annað barn sem leiðir til þess að hana verkjar
í skrokkinn og tekur upp fyrri iðju þegar hún bókstaflega „forðast að hugsa
eða tala um það sem gerðist, hitta fólk sem tengist atburðinum eða forð-
ast staðinn þar sem áfallið átti sér stað“.76 Hegðun Kristínar er með öðrum
orðum skýrt dæmi um áhrif áfallastreituröskunar á einstakling. ólíkt Sögu
sem hefur takmarkaðar minningar um trámu fortíðarinnar man Kristín þau
of vel en með því að láta sig hverfa viðheldur hún þögguninni sem ríkt hefur
í fjölskyldunni um fyrri áföll.
Í sögunni gegnir hvarf Kristínar svipuðu hlutverki og flogaköstin því það
neyðir Sögu til að rifja upp erfiða reynslu úr fortíðinni vilji hún skilja nú-
tíðina. Fyrir flogaköstin ræddi Saga ekki um Katrínu við nokkurn mann og
eftir þau man hún ekki einu sinni eftir því að hafa átt yngri systur. Sem fyrr
75 Tekið skal fram að Auður hefur áður lýst viðbrögðum móður við flogaveiki
dóttur en það gerði hún eftirminnilega í sögunni Ósjálfrátt, þar segir að: móðirin
„veslaðist upp í hvert skipti sem barnið vaknaði á bráðavaktinni með storknaða
froðu í munnvikunum og blóðugan hárflóka eftir að hafa skollið á hausinn úti á
miðri götu eða flogið í loftköstum niður stiga. Í hvert skipti sem Mamma fékk símtal
frá bráðamóttökunni missti hún matarlystina í þrjá daga og svaf ekkert næstu þrjár
nætur.“ Auður Jónsdóttir, Ósjálfrátt, Reykjavík: Mál og menning, 2012, bls. 96.
76 Berglind Guðmundsdóttir, Edda Björk Þórðardóttir og Agnes Gísladóttir, „Áhrif
áfalla á heilsufar kvenna“, Við góða heilsu? Konur og heilbrigði í nútímasamfélagi,
ritstjórar Helga Gottfreðsdóttir og Herdís Sveinsdóttir, Reykjavík: Háskólaútgáfan,
2012, bls. 155–172, hér bls. 159.