Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Qupperneq 23
VERA KnÚTSDóTTIR
28
hennar í Bandaríkjunum, sem hún svo síðar í frásögninni viðurkennir að séu ekki
réttar og eigi sér raunar ekki stoð í raunveruleika söguheimsins.58 Í fyrrnefndri
grein greinir Guðrún Lára hvernig lygar Jennu vinna gegn samlíðun lesandans
og hvernig þær skapa ákveðið rof í sambandi lesandans við frásögnina.59 Jenna
byrjar á að lýsa því hvernig hún hafi flúið fjölskyldu sína til Bandaríkjanna, hafi
hitt mann úr góðri og efnaðri fjölskyldu og gifst honum, en síðar skilið og lifi
nú á launum frá honum. Síðar viðurkennir hún að hafa gifst öðrum manni,
glæpamanni sem hún hitti þegar hún vann sem strippari. Hún segir frá því lífi
en viðurkennir svo þrjátíu síðum síðar eða svo að það sé uppspuni frá rótum, að
hún hafi aldrei verið gift, en eignast Jackie með gömlum kærasta sem gafst upp á
lygasýki hennar og yfirgaf hana. Uppbygging skáldsögunnar er því á þá leið að
sögumaðurinn skapar sögu sem fylgir nákvæmri atburðarás sem lesandinn á að
taka sem trúanlega, en hún síðar viðurkennir að sé byggð á lygi. Lesandinn er
því í vafa um söguna sem hann er að lesa, og ekki síður um sögumanninn sem
matreiðir frásögnina ofan í hann. Þessi frásagnargerð skapar framandgervingu í
leshætti verksins, sem lýsir því hvernig lesandanum bregður illilega í brún þegar
hann uppgötvar að Jenna hefur svikið hann og gengið á bak samkomulaginu
sem hún gerði við hann í upphafi. Í seinni hluta sögunnar kemur fram að Jenna
hafi skráð sig í ritlist við Háskóla Íslands, sem bendir til að frásagnir hennar af
upplognu lífi og ímynd séu ritæfingar hennar úr náminu. Þetta ferli gefur verkinu
ákveðið metavægi og vekur upp þá spurningu hvort að Hvítfeld sé frekar sjálfsaga
(e. metafictional novel) en fjölskyldusaga; það er saga sem sífellt vísar í tilurð sína og
sköpunarsögu.60 Um leið varpar það ljósi á stöðu lesandans sem þátttakanda í
frásögninni og um leið þátttakanda í hrunsamfélaginu.
Þessi tvíbenta staða lesandans er ítrekuð í gegnum gægjusýningu í sögunni.
Þegar Jenna segir lesandanum frá lífi sínu sem strippari lýsir hún nákvæmlega
gægjusýningunum (e. peep show) sem hún fékk borgað fyrir að stunda og köll-
unum sem komu og fylgdust með henni: „Ég snerti sjálfa mig án þess að langa
sérstaklega til þess, fróaði mér vélrænt fyrir framan þá og fann hvernig kerfið
brást ósjálfrátt við, eins og vél algerlega úr tengslum við hugann sem stöðugt rak
sig á sama hryllinginn. Vegna þess að vitneskjunni um klefann hinum megin við
58 Guðrún Steinþórsdóttir beitir orðinu „samlíðan“ til að þýða hugtakið „empathy“ og út-
skýrir hvernig orðið er notað um „innsýn manna í og skilning á tilfinningum og líðan
annarra“; Raunveruleiki hugans er ævintýri: Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og
viðtökur, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2021, bls. 51.
59 Guðrún Lára Pétursdóttir, „Úps, ég gerði það aftur“, bls. 207.
60 Sjá til dæmis hvernig Jón Karl Helgason fjallar um hugtakið „metafiction“ og mögulegar
þýðingar þess í greininni: „Deiligaldur Elíasar: tilraun um frásagnarspegla og sjálfgetinn
skáldskap“, Ritið 3/2006, bls. 101–130.