Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 39
SuNNA DÍS JeNSDóTTIR
44
Skelfingin sem greip hann var svo kröftug að það var eins og færi um
hann raflost. Hann reyndi að öskra en hljóðið festist í hálsi hans. […]
Nonni fann fyrir heitri bleytu í klofinu, fann hvernig veruleikinn skildi
við hann og myrkrið varð algjört. Hann féll aftur fyrir sig og inn í með-
vitundarleysið (86).
Sálarangist Nonna er algjör þegar hann stendur andspænis skrímslinu og hann
virðist ekki eiga neitt líkamlegt né andlegt mótsvar gagnvart tilfinningunni sem
grípur hann. Árið 1919 gerði Freud ótta að umfjöllunarefni í riti um hið ókenni-
lega (þýs. das Unheimliche, e. the uncanny).20 Þar tekur hann til umræðu samtal sitt
við geðlækninn ernst Jentsch sem taldi óútskýrðan ótta eiga rætur sínar að rekja
til hins óþekkta. Þessu andmælir Freud í grein sinni og færir rök fyrir að óút-
skýrður ótti, eða ókennileikatilfinning, stafi af þekkingu sem einstaklingurinn
hefur bælt niður í dulvitundina og kannast því við á ómeðvitaðan hátt.21 Með
það til hliðsjónar eru viðbrögð Nonna enn athyglisverðari. ótti hans er vissu-
lega útskýranlegur, hann stendur frammi fyrir skrímslinu sem hann hefur reynt
að afneita, en engu að síður umlykur einhver ókennileiki aðstæðurnar. Frammi
fyrir skepnunni fellur hann í yfirlið, eða „inn í meðvitundarleysið“ (86), líkt og
hann geti ekki samþykkt tilvist þess í eigin vitund. Túlka mætti ófreskjuna sem
hið bælda sem reynir að brjóta sér leið út úr dulvitundinni en ókennileikinn sem
því fylgir verður Nonna um megn.
Bókmenntafræðingurinn David Punter segir að gotneskur skáldskapur glími
við það ókennilega í upplifun lesandans.22 Þá feli ókennileiki í sér ásókn for-
tíðarinnar og bælingu sem jafnan á í tengslum við slæmar minningar eða tráma.
Slík upplifun vekur upp ótta eða í það minnsta þá tilfinningu að einstaklingurinn
ætti að vera óttasleginn þrátt fyrir að hann geri sér ekki endilega grein fyrir
hvers vegna.23 Ýmsir aðrir bókmenntafræðingar hafa túlkað þessa skilgreiningu
Freud, þar á meðal Nicholas Royle sem segir að hið ókennilega sé sambland af
20 Sigmund Freud, „Hið óhugnanlega“, Listir og listamenn, þýðandi Sigurjón Björnsson,
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2004, bls. 191–239. Í sérstökum inngangi
þýðanda tekur Sigurjón fram að notast sé við þýðinguna hið óhugnanlega fyrir hugtakið
das unheimliche en viðurkennir um leið vankanta þýðingarinnar sem ekki tekst að koma
tvíræðri merkingu hugtaksins nægilega vel til skila. Sama rit, bls. 193. Hér verður notast
við þýðinguna hið ókennilega líkt og hefð hefur skapast fyrir meðal bókmenntafræðinga hér
á landi á undanförnum árum. Sjá til dæmis Dagný Kristjánsdóttir, „Kóralína og mæður
hennar“, bls. 81–102, ath. sérstaklega bls. 91.
21 Sigmund Freud, „Hið óhugnanlega“, bls. 225–232.
22 David Punter, „Introduction“, bls. 2.
23 David Punter, „The uncanny“, bls. 130–136.