Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Blaðsíða 79
MARTEINN KNARAN ÓMARSSON
84
Að þessu leyti eru raðmorðingjar ólíkir og því ef til vill ekki eins hættulegir,
að minnsta kosti geta sum andað rólegar. Þeir velja jafnan fórnarlömb sín vand-
lega og níðast helst á þeim sem minna mega sín eða eru auðveldar bráðir líkt og
afbrotafræðingurinn Enzo Yaksic bendir á.48 Þau öldruðu og bjargarlausu, þau
sem eru illa stödd félagslega, búa á götunum eða starfa við kynlífsþjónustu eru
algeng fórnarlömb enda líklegra að þeirra verði ekki saknað. Um leið kæra yfir-
völd sig oft minna um þennan hóp fólks. Svoleiðis komast morðingjar upp með
glæpi sína og geta haldið þeim áfram óáreittir. Það er sjaldgæft að valdamiklir
einstaklingar séu myrtir af raðmorðingjum og ef slíkt kemur upp eru morðin
iðulega túlkuð sem pólitískur gjörningur, árás á málstað viðkomandi, ákveðna
hugmyndafræði eða kerfi sem eru jafnan ríkjandi í samfélaginu. Þá er líka oftar
en ekki tekið hart á málum.49
Fórnarlömb raðmorðingjans í Kóperníku eru athyglisverð blanda þessa. Þau
eiga það mörg sameiginlegt að vera í senn valdamikil og félagslega undirsett
sem gæti enn fremur útskýrt áhugaleysi stjórnvalda að leysa málið í sögunni.
Það gæti þó allt eins verið getuleysi þar sem um fordæmalausan glæp er að ræða.
Að vísu halda menn fyrst um sinn að barnamorðingi gangi laus í borginni þar
sem krakkarnir á götunum virðast vera að týna tölunni smátt og smátt. Hinn
hnarreisti Halldór Júbelíum, nýútskrifaður íslenskur læknir frá konunglega há-
skólanum, óttast því síður morðingjann enda ekkert barn og leyfir sér að vera úti
eftir myrkur. Halldór veit hins vegar ekki, ekkert frekar en lesandi á þessu stigi,
að engin barnamorð hafa átt sér stað. Ástæðan fyrir hvarfi götukrakkanna er
síður en svo ógeðfelld en líkt og kemur fram seint í sögunni starfar góðhjartað
fólk við að bjarga þeim af götunum. Má reyndar túlka þennan þráð verksins sem
dæmi um það hvernig raðmorðingjaógnin er stundum blásin út, úlfaldi gerður
úr mýflugu eins og sagnfræðingurinn Philip Jenkins ræðir meðal annars í bók
sinni Using murder. The Social Construction of Serial Homicide (1991) þar sem rað-
morðingjafárið (e. serial killer panic) í Bandaríkjunum á áttunda og níunda áratug
síðustu aldar er tekið til skoðunar.50 Seinna í sögunni er þessi tilhneiging manna
48 Enzo Yaksic, Killer Data. Modern Perspectives on Serial Murder, bls. 1–3.
49 Í þessu samhengi mætti nefna glæpi bandaríska morðingjans Ted Kaczynski sem dæmi
um þetta en hann sendi bréfasprengjur á ýmsa velmegandi borgara, einnig háskóla og
flugfélög og tókst að myrða þrjá einstaklinga. Kallaði hann eftir niðurrifi nútímaiðn-
samfélagsins og fékk manifestó sitt birt í The Washington Post árið 1995 en var handtekinn
stuttu síðar. Leitin að honum var sú dýrasta í sögu bandarísku alríkislögreglunnar á sín-
um tíma. Sjá „The Unabomber“, FBI: Federal Bureau of Investigation, sótt 23. maí 2023
af https://www.fbi.gov/history/famous-cases/unabomber. Theodore John Kaczynski,
Industrial Society And Its Future, Westminster, Colarado: PubHouseBooks, 2018.
50 Sjá Philip Jenkins, Using Murder. The Social Construction of Serial Homicide, bls. 21–22.