Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2023, Page 90
KVIðRISTARINN Í KAUPMANNAHÖFN
95
karllægt goðmagn og síðan snúa upp á hinn hefðbundna söguskilning sýnir höf-
undur bæði hvernig feðraveldið getur alið af sér karlkyns raðmorðingja (Kobba)
sem drepur konur af hatri og brengluðum karlmennskuhugmyndum en líka rað-
morðingja sem er kona (Kóperníka) og drepur í hefndarskyni fyrir illa meðferð
í sömu menningu.
Að þessu leyti minnir frásögnin nokkuð á bandarísku kvikmyndina Monster frá
árinu 2003 í leikstjórn Patty Jenkins þar sem fjallað er um ævi og „störf“ banda-
ríska raðmorðingjans Aileen Carol Wuornos sem áður hefur verið minnst á.64
Hún er einn þekktasti kvenraðmorðingi sögunnar og mýmargt verið skrifað um
hana. Aileen starfaði sem kynlífsverkakona á götunum í Flórída og hóf morð-
feril sinn eftir að hafa verið nauðgað hrottalega af viðskiptavini sem hún sagðist
hafa myrt í sjálfsvörn. Í kjölfarið hóf hún að drepa karlmenn hvað eftir annað
og sagði hvata sinn vera hefnd fyrir þá meðferð sem hún hafði fengið frá körlum
í gegnum tíðina og verandi kona í karllægu samfélagi. Titill kvikmyndarinnar
„Monster“ eða ófreskja er misvísandi en hæglega væri hægt að túlka hann sem
vísun í Aileen sjálfa sem Charlize Theron leikur í myndinni í miklu dulargervi.
Í raun skírskotar titillinn þó í risavaxið Parísarhjól í skemmtigarði í Flórída sem
Aileen þorði aldrei í sökum lofthræðslu. Seinna í kvikmyndinni líkir hún þessu
tæki við sjálft lífið sem hún uppgötvar að er hálfgerð ófreskja einkum fyrir konur,
eins og hana, sem virðast ekki hafa nokkra möguleika aðra í lífinu en að „húkka“
og eyðast smátt og smátt upp á götunum. Sögusamúðin liggur nánast öll Aileen
megin í kvikmyndinni og lögð er áhersla á það hvernig ytri þættir leiða hana
út á þessa braut. Þetta er í sjálfu sér gott og gilt enda ljóst að raðmorð eiga sér
menningar- og félagslegar rætur eins og fjallað hefur verið um og sem einnig er
mikilvægt að ávarpa í sögum. Um leið er þó mjög vafasamt að skapa of mikla
samúð með raðmorðingjum í frásögnum, hvort sem um konu eða karl er að
ræða, og er þetta siðferðilegt vandamál sem hver höfundur þarf að takast á við
sem og lesendur.
Í Kóperníku er morðunum fundin réttlæting og samúð einnig sköpuð með
þeim Marie Louise og Virgli. Þetta er þó ekki eins sterkt og í Monster og kemur
það meðal annars til vegna mismunandi formgerða verkanna. Monster er ekki
glæpasaga í sjálfu sér og alfarið sögð frá sjónarhóli Aileen með þeim afleiðingum
að mikil samsömun á sér stað með persónunni. Sögumaður Kóperníku, sem óljóst
er hver er þótt gefið sé í skyn að hann sé hluti af persónugalleríinu, fylgir aftur
á móti Finni allan tímann og auðkenni morðingjans ekki gefið upp fyrr en í
sögulok. Marie fær þá orðið í stuttri senu og segir harmræna ævisögu sína og
64 Patty Jenkins (leikstjóri), Monster, Los Angeles: Denver & Delilah Films og K/W Produc-
tions, 2003.